143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[19:00]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega ekki hægt annað en að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Auðvitað veltir maður því fyrir sér fyrst þetta ber svona seint að hér í dag, klukkan 18, hvaða annað mál sé svona mikilvægt sem hæstv. ráðherra þarf að sinna og ber svona ótrúlega seint að að hann sjái sér ekki fært að vera hér á morgun. Þetta er auðvitað bara ótrúverðugur málflutningur, það er ekki hægt að segja neitt annað. Og eins og sagt var áðan þá þarf ekki að vera með neina spéhræðslu í sambandi við 1. apríl, hann kemur og fer árlega eins og við vitum og þá er ýmislegt gert sér til gamans. En auðvitað hugsar maður það sama og nokkrir hv. þingmenn: Hvaða mál er þá þess virði að það sé rætt á morgun ef heimsmetið er ekki á dagskránni og ekki má ræða það, hvaða annað mál má þá ræða?

Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sagði áðan að (Forseti hringir.) ekki hefði verið hægt að ræða málið vegna þess að stjórnarandstaðan hefði sett sig upp á móti því, en (Forseti hringir.) það er náttúrlega ekki málefnaleg umræða að (Forseti hringir.) halda því fram að þetta stóra mál eigi (Forseti hringir.) að koma hér til umræðu tæpum sólarhring eftir að það var lagt fram.