143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[19:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hélt eitt augnablik áðan, þegar hv. þingmenn komu með þessi tíðindi inn í þingsal til okkar sem vorum að leggja fram fyrirspurnir og ræða fyrirspurnir við ráðherra, að hv. þingmenn væru að þjófstarta 1. apríl og ætluðu að fara að láta okkur hlaupa 1. apríl svona snemma sem hér vorum inni og gátum ekki fylgst með. En ég verð að líta á það sem alvöru þegar það er komið í hámæli núna að skuldamálið stóra, heimsmetið, verði ekki rætt á morgun vegna spéhræðslu ríkisstjórnarinnar út af þessu litla máli sem átti að vera svo stórt.

Virðulegi forseti. Ég vil líka benda á að dagskrá þingsins var breytt m.a. út af þessu. Á morgun og á miðvikudag og fimmtudag áttu að vera nefndadagar en morgundagurinn og miðvikudagurinn eru núna þingdagar til að ræða mál. Ríkisstjórnin er mjög sein með öll mál.

Virðulegi forseti. Ef hér er á ferðinni spéhræðsla vegna 1. apríl varðandi heimsmetsmálið, stóra skuldaleiðréttingamálið, þá held ég að við verðum að fara aftur til 1. apríl í fyrra og athuga hvort það geti verið að hæstv. forsætisráðherra hafi lofað 300 milljörðunum í skuldaleiðréttingu, en við föttuðum það bara ekki þá.

Virðulegi forseti. Mér sýnist hæstv. ríkisstjórn vera eitt stórt (Forseti hringir.) aprílgabb.