143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[19:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mér leið nú eins og hv. þm. Kristjáni L. Möller, ég hélt að það væri einhver sem vissi ekki hvernig ætti að láta menn hlaupa apríl þann 1. apríl, að það væri þjófstartað, byrjað degi of snemma, vegna þess að það hvarflaði ekki að mér að það væri rétt að menn væru búnir að breyta dagskrá út af dagsetningunni.

Mig langar að spyrja hæstv. forseta, svo að ég fái svarið beint: Hver er skýringin á breytingu á dagskránni? Er það rétt að það sé vegna þess að það er 1. apríl á morgun?

Mig langar líka að gera að umtalsefni það sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra dró hér fram, að það hafi verið krafa stjórnarandstöðunnar að nú á mánudegi yrði svarað munnlegum fyrirspurnum, eins og verið væri að sóa tímanum með því. Síðasta mánudag var ekki munnlegur fyrirspurnatími, sem þó er venja samkvæmt starfsreglum þingsins. Það er eitthvað undarlegt ef það telst orðið óeðlilegt að vera með fyrirspurnir á þessum degi, ég er búinn að bíða hér í allan dag eftir því að komast að með fyrirspurn mína. Við höfum átt hér mjög ánægjulegan fund í dag, (Forseti hringir.) menn hafa ekki verið að teygja lopann á einn eða annan hátt, heldur (Forseti hringir.) rætt málin faglega bæði í sérstökum umræðum og með öðrum hætti. (Forseti hringir.) Ég bið hæstv. forseta að skýra betur út hvað er að gerast hér svo við séum ekki með getgátur um það.