143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[19:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ógæfu þessarar ríkisstjórnar verður allt að vopni. Mér dettur nú í hug draumur formanns Vinstri grænna [Hlátur í þingsal.] sem verið hefur í opinberri umræðu hér undanfarna daga og vikur og tel að ráðningin sé komin á þeim draumi. Formanninn dreymdi að Bjarni Benediktsson hefði verið settur í koffort og fluttur hreppaflutningum til Hafnarfjarðar í Bæjarbíó. [Hlátur í þingsal.] Ég er nú frekar draumspök manneskja og held að þarna sé ráðningin komin á þeim draumi, að menn séu bara með málin öll ofan í kofforti og þori ekki að koma fram í dagsljósið með sín stærstu mál sem eiga að vera heimsmet hér og þar.

Ef ríkisstjórnin er virkilega þannig stödd að hún sé hrædd um að verða að athlægi í þessari umræðu þá held ég að hún verði miklu meira í kastljósinu vegna þess að hún þorir ekki að fara fram með málið 1. apríl. Ég tel að tími sé kominn til þess að hæstv. ríkisstjórn fari á sjálfstyrkingarnámskeið. [Hlátur í þingsal.]