143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

leiðbeiningarskylda Tryggingastofnunar.

401. mál
[19:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, en vandinn er að mínu mati sá að ég er ekki sammála hæstv. ráðherra og þeirri niðurstöðu hennar að staðan sé viðunandi. Ég held að hún hafi í raun aldrei verið það. Það eru frjáls félagasamtök á sviði velferðarmála sem hafa talað um það í mörg herrans ár, meira að segja áður en til niðurskurðar kom, sem við þekkjum því miður allt of vel.

Ég held þess vegna að við eigum að reyna að ná hér þverpólitískri samstöðu — okkur hefur tekist það í ýmsum málum og ef ekki í þessu máli, í hverju þá? — um að styðja við stofnunina til að hún geti bætt þarna úr. Þar eigum við að kalla til þau frjálsu félagasamtök sem þekkja þjónustuna miklu betur en við sem erum hér inni, vegna þess að lögin eru flókin. Þetta er tyrfið umhverfi og það verður aldrei einfalt, það getur ekki orðið það vegna þess að þetta eru ólíkir hópar fólks sem stofnunin þjónustar sem býr við ólíkar aðstæður. Ég held að þegar fólk kemur og þarf á þjónustu stofnunarinnar að halda verðum við að tryggja að stofnunin taki viðkomandi einstakling að sér og sjái um mál hans og geri það á sem bestan hátt.

Ég held líka að ef mönnum tekst að setja, hvað það nú var, Íslandsmet í upplýsingabyltingu, appið sem á að nota eða tölvukerfið á bak við skuldalækkanirnar, þá hljóti menn að geta sett upp svipað kerfi fyrir þá sem leita á náðir Tryggingastofnunar þar sem fólk þarf að skrá sig og stofnunin heldur síðan utan um einstaklingana í framhaldinu. Við hljótum að geta náð saman um þetta. Þeir umsagnaraðilar sem fjölluðu um (Forseti hringir.) frumvarp til almannatrygginga, sem hæstv. ráðherra vísaði til áðan, eru ekki sammála því að staðan eins og hún er í dag sé viðunandi.