143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

félagsvísar.

425. mál
[19:35]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er synd að fleiri félagar hv. þingmanns og fyrrverandi velferðarráðherra skuli ekki hafa áhuga á þessu merka verkefni sem fyrrverandi ráðherra kom að í sinni ráðherratíð, en við hæstv. innanríkisráðherra og starfandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins sýnum að minnsta kosti þessu merka framtaki áhuga.

Hvað varðar birtinguna á félagsvísunum er það sem ég fjallaði hér um í samræmi við það samkomulag sem var undirritað í lok árs 2012. Þar er talað um að fjórum sinnum á ári eigi Hagstofan að afhenda velferðarráðuneytinu tölulegar niðurstöður og önnur gögn sem stofnunin hefur uppfært. Þá er tilgreint hvenær á að afhenda þessi gögn. Eftir að við fáum þau er báðum aðilum frjálst að birta niðurstöðuna opinberlega og hagnýta hana með öðrum hætti. Hagstofan hefur þá líka rétt á að birta án takmarkana hagtölur vegna reglulegrar starfsemi sinnar samkvæmt birtingaráætlun á vefsíðu sinni. Fyrsta viðmiðunarár þessara hagtalna í félagsvísunum var árið 2011 þannig að þetta er nokkurn veginn í samræmi við það samkomulag sem var gert. Hér eru líka tilgreind ákveðin markmið.

Það sem ég vil fá að bæta við er að þarna eru mjög mikilvæg gögn tekin saman. Ég er alveg sammála því að það sé mjög mikilvægt að við séum að horfa til félagsvísanna en ekki bara þessara hefðbundnu hagtalna sem við erum svo miklu vanari að fjalla um. Ég vonast til þess að þetta verði einmitt meðal þeirra gagna sem við á Alþingi og stjórnvöld munum nýta til að taka ákvarðanir um það hvernig best sé að ráðstafa þeim fjármunum sem við höfum, sérstaklega í ljósi þess að við erum að fá síendurtekið betri gögn og rannsóknir sem segja okkur að við getum haft mjög mikil áhrif (Forseti hringir.) á velferðina, það hvernig við höldum utan um börnin okkar, hvernig við höldum utan um fjölskylduna. Ég veit að ég á svo sannarlega stuðning fyrrverandi ráðherra í því máli.