143. löggjafarþing — 85. fundur,  31. mars 2014.

fjármálastöðugleikaráð.

426. mál
[20:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég verð að fagna þessu frumvarpi og fagna því að vinnu miðar áfram við að endurskoða og fara í gegnum löggjöf um fjármálamarkaðinn í heild sinni og skipulagið og fyrirkomulagið hér hjá okkur, bæði í stjórnsýslunni, lagalega, pólitískt, í ljósi biturrar reynslu okkar af banka- og fjármálahruninu á Íslandi 2008. Ýmislegt hefur verið gert nú þegar eins og hæstv. ráðherra nefndi. Má þar nefna talsverðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki 2009 og 2010 og síðan ýmiss konar undirbúningsstarf sem er að skila hér af sér, sumt hvað, efnivið, svo sem eins og þessu frumvarpi um fjármálastöðugleikaráð, einhvers konar regnhlífarlöggjöf um stóra skipulagið utan um fjármálastöðugleikavinnu í heild. Sama má segja um frumvarp um opinber fjármál og boðað frumvarp um slitameðferð fjármálafyrirtækja sem er einnig afrakstur af sérfræðingavinnu sem unnin var á árunum 2011 og 2012, og lagðar til talsverðar breytingar.

Ég held að þessu verki verði ekki lokið fyrr en farið hefur verið í gegnum alla þessa löggjöf í heild sinni. Vonandi hefst það á þessu kjörtímabili því að mörgu þarf að breyta og margt þarf að tryggja ef við ætlum aldrei að láta það endurtaka sig, og ekkert í líkingu við það, sem gerðist því miður á Íslandi árið 2008; það eru hlutir sem eiga aldrei að gerast.

Ég get tekið undir þá skilgreiningu sem hæstv. ráðherra fór hér yfir hvað það var kannski í aðalatriðum sem brást nema ég hefði getað bætt talsvert í röksemdafærslurnar, sérstaklega hvað varðar viðskiptasiðferði og venjur sem sköpuðust í þessu kerfi, græðgina og ágirndina sem dreif þetta áfram og gekk út yfir allan þjófabálk. Það er hverju orði sannara, og það er gaman að heyra það frá hæstv. fjármálaráðherra, komandi úr Sjálfstæðisflokknum, að auðvitað getum við ekki haft svona kerfi sem einkavæðir óheyrilegan gróða á meintum góðæristímum. Menn taka þá til sín óheyrileg laun, bónusa eða beinan gróða út úr rekstri einkafyrirtækja en ætlast svo til þess að skattborgararnir og samfélagið hlaupi undir bagga þegar á bjátar og beri tapið af öllu sem úrskeiðis fer. Það er bara ekki hægt, það er ekki boðlegt kerfi. Mér finnst að það standi eiginlega upp á allan hinn vestræna heim, og í raun allan heiminn, sem var meira og minna orðinn hallur undir þessa vitleysu, að sýna það og sanna fyrir almenningi, hvar á byggðu bóli sem er, að menn ætli ekki að láta þetta endurtaka sig.

Það er sömuleiðis alveg ljóst að margt brást sem varðar eftirlit, í raun bæði hvað varðar eindaeftirlit og svo heildaryfirsýn sem brást enn meir, þ.e. kerfisáhættan sem safnaðist upp þegar margar samþættar fjármálastofnanir og viðskiptalífið var í þessum óheillavænlegu krosstengslum sem vel er farið yfir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, það gerði þetta í raun og veru að píramídahagkerfi. Kannski er nær að tala bara um spilaborg; það þurfti ekki að kippa mörgum spilum út úr þá gat allt heila móverkið hrunið því að þetta var svo tengt hvað öðru.

Að lokum og alveg réttilega nefndi hæstv. fjármálaráðherra það sem er nú aðalefni þessa frumvarps, það er viðbúnaðurinn, það er skipulagið utan um það hvernig menn takast á við þessi viðfangsefni dagsdaglega og ef viðsjárverðir tímar ganga í garð. Það kom mjög á daginn að þar voru miklar brotalamir og menn reyndust mjög óviðbúnir og óvanir því að eiga við ýmis verkefni af því tagi sem urðu óumflýjanleg með hruninu.

Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að ábyrgðin sé skýr, ábyrgðarkeðjan verður að liggja algjörlega skýrt fyrir þannig að enginn geti vísað á annan. Þetta eru alvörumál af því tagi að það dugar ekki að menn hendi bara einhverjum bolta á milli sín. Verkaskipting og skipulag þarf að liggja mjög skýrt fyrir og það þarf að bíða klárt hverra þeirra aðstæðna sem menn gætu þurft að takast á við. Þegar þær berja að dyrum er ekkert endilega víst að tíminn sé mikill sem menn hafa, þá er ekki gott ef menn þurfa að fara að setjast niður og semja skipulagið og ákveða hver gerir hvað. Það þarf að sjálfsögðu allt að liggja fyrir og ég tel í sjálfu sér að ágætlega sé um það búið hér með fjármálastöðugleikaráðinu. Það er algerlega skýrt hvar yfirábyrgðin á þessu liggur hjá þeim ráðherra sem fer með ríkisfjármál og efnahagsmál og með honum koma svo að þessu seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Stofnanirnar eru aðilar að þessu ráði, að þeirri einingu sem þarna er búin til, það skiptir miklu máli. Þar með eru engin landamæri þegar fulltrúar þeirra eru komnir upp í fjármálastöðugleikaráðið. Það er auðvitað einn megintilgangurinn með þessu, að einhvers staðar sé yfirstjórn yfir þessum hlutum þar sem menn geta aldrei borið við neinu af því tagi að þeir miðli ekki upplýsingum um þetta eða hitt af því þær séu einkamál viðkomandi stofnunar og aðrir eigi ekki að vera að hnýsast í það o.s.frv. Landamærin verða að hverfa í nægjanlega ríkum mæli til að hægt sé að hafa þetta eftirlit viðvarandi og algerlega ef viðsjárverðar aðstæður koma upp.

Í öðru lagi held ég að þau tæki sem ráðið hefur — sem að vísu er nú svolítið sérstakt. Fjármálastöðugleikaráð, sem er ráðherrann, seðlabankastjórinn og forstjóri Fjármálaeftirlitsins, getur beint tilmælum, eins og þarna stendur, til þar til bærra stjórnvalda um aðgerðir — manni finnst nú kannski fljótt á litið að oftast mundu tilmælin beinast að þeim sjálfum með einhverjum hætti, þeim sem þarna sitja. Þó getur vel verið að þeir sjái ástæðu til að beina tilmælum til stjórnvalda á öðrum vettvangi, segjum til dæmis þess ráðherra sem fer með húsnæðismál eða hugsanlega forsætisráðherra sjálfs; fjármálastöðugleikaráðið birtir þá tilmæli sín og rökstuðning fyrir þeim svo fremi sem það sé ekki beinlínis talið ógna fjármálastöðugleika sem slíkt.

Í 6. gr. er fjallað um viðbragðsáætlanir. Þá er vikið að aðstæðum sem geta komið upp og verða þess valdandi að fjármálastöðugleikaráðið virkjast í ríkari mæli en endranær og kemur þá oftar saman til fundar en mælt er fyrir um í 2. mgr. 3. gr. Þar er talað um að það komi saman til fundar þrisvar sinnum á ári hið minnsta og oftar ef einhver ráðsmaður telur ástæðu til. En ef svo fer að menn óttast að fjármálakreppa sé í vændum, teljist yfirvofandi eins og þar er sagt, skollin á eða ef hætta er á atburðum sem geta valdið umtalsverðum smitáhrifum á fjármálastöðugleikaráðið að virkjast í ríkari mæli.

Ég staldra aðeins við frágang málsins þarna. Það er spurning hvort með einhverjum hætti þarf að gera skýrari skil milli þess sem menn geta kallað stöðugt eða venjulegt ástand og ástands þar sem einhvers konar viðbúnaðarstig er komið í gang. Það eru auðvitað sjónarmið í báðar áttir í þeim efnum. Sumir telja að það geti valdið viðbótaróróleika og menn eigi bara að vinna sín störf. En eftir á að hyggja og að mörgu leyti held ég að það sé bæði hreinlegra og heiðarlegra að gera mönnum grein fyrir því ef aukinn viðbúnaður er kominn í gang vegna þess að óvissutímar séu fram undan og fjármálastöðugleika kunni að vera stofnað í hættu.

Til dæmis voru uppi hugmyndir um það að á einhverju stigi mála, sem ekki hefur orðið niðurstaðan hér, að við slíkar aðstæður yrði fjármálastöðugleikaráðið styrkt eða breikkað. Þannig kæmi til dæmis forsætisráðherra inn í ráðið ef menn litu svo á að þeir væru komnir á einhvers konar viðbúnaðarstig með vinnuna. Ég hef að minnsta kosti staldrað við þá hugsun hvort gera eigi áhlaup að því að hafa þarna aðeins skýrari mörk á milli einhvers sem við gætum sagt að við kölluðum venjulegt stöðugt ástand og svo þess þegar viðbragðsáætlun væri komin í gang og viðbúnaðarstigið hefði verið hækkað.

Síðan er það kerfisáhættunefndin sem verður kannski aðalvinnutækið og hefur mjög mikilvægt hlutverk. Það á að nýta sér greiningarvinnu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og starfa á grundvelli samstarfssamnings þeirra stofnana; sem og greiningarvinnu annarra innlendra og erlendra aðila eftir því sem tilefni er til. Það stendur væntanlega ekki til í framhaldinu að púa á erlenda fræðimenn ef þeir skyldu leyfa sér að gerast gagnrýnir á eitthvað sem væri að gerast á Íslandi og hafa þá að háði og spotti, heldur einmitt að hlusta og fara ofan í saumana á því, hafa mennirnir eitthvað til síns máls, hvort sem þeir hétu Lars Christiansen frá Den Danske Bank eða einhverjir aðrir. Ætli sagan hafi ekki kennt okkur að við hefðum betur lagt eyrun við og hlustað á ýmislegt sem reynt var að vekja athygli okkar á á árunum 2004 og 2005 og þó alveg sérstaklega kannski á árinu 2006? Það var lítil stemning fyrir því á Íslandi þá eins og kunnugt er og almennt voru útlendingar sakaðir um að misskilja þetta allt saman eða vera öfundsjúkir út í velgengni Íslendinga, ég veit ekki hvað og hvað það var. Það var nú ekki skynsamlegt. Þvert á móti hefur reynslan, vona ég, kennt okkur að það er mjög mikilvægt að taka allri málefnalegri gagnrýni þannig að hún sé að minnsta kosti skoðuð og farið ofan í saumana á því hvort þar sé eitthvað á ferðinni sem ástæða er til að gefa gaum.

Ég tek sömuleiðis undir það að 9. gr. um gagnaöflunina er algjör lykilgrein. Hún er kjölfestan í því að hægt sé að vinna þetta starf, þ.e. að stofnununum sem búa yfir upplýsingunum sé skylt að reiða þær fram í þágu þessa verkefnis eins og þar er kveðið á um; fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefndin á að fá upplýsingar og gögn sem stofnanirnar búa yfir og ráðið og nefndin telja nauðsynlegar vegna starfa sinna.

Að lokum vil ég staldra við 10. gr. Það er svolítið svipað og hv. þm. Árni Páll Árnason var að nefna að ég sakna þess í sjálfu sér að þar er hvergi neitt minnst á pólitískt samráð, hvorki dagsdaglega né endranær og ekki einu sinni þó að einhvers konar viðbúnaðarstig væri komið á. Það held ég að þurfi að vera, að fjármálastöðugleikaráðið eða formaður þess, eins og fjallað er um í 3. mgr. 10. gr., geti ekki bara haldið ríkisstjórninni sérstaklega upplýstri, honum ber skylda til þess þar, eða kollegum sínum í ríkisstjórn, um störf ráðsins og viðbúnað stjórnvalda og viðbragðsáætlanir við sérstökum aðstæðum, heldur til dæmis með árlegum, eða tvisvar á ári, fundum með forustumönnum allra stjórnmálaflokka í landinu eitthvað því um líkt. Ég held við eigum að setja eitthvert slíkt ákvæði þarna inn, þar með er það komið. Það er allt of seint að fara að láta sér detta slíkt í hug og finna það upp þegar allt er komið í kaldakol þó að menn mundu sjálfsagt grípa til þess ráðs eins og sagan sýnir. Ég nefni þar daglega fundi allra formanna stjórnmálaflokka hér eiginlega allan októbermánuði 2008, komst bara á einhvern veginn af því aðstæðurnar neyddu menn saman. Ég held því fram að það hafi verið gagnlegt og hjálpað til að menn báru sig mjög þétt saman.

Þetta voru nú þau sjónarmið, virðulegur forseti, sem ég vildi koma hér á framfæri. Ég fagna þessu frumvarpi og er einnig spenntur fyrir því að taka það til skoðunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta er nú ekki flóknara en svo að ég held að ættu að vera ágætislíkur á því að gera þetta að lögum í vor.