143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla hér að nefna þau atriði sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er að gera fyrir heimilin í landinu. Fyrst ber að nefna skuldalækkun á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna upp á 150 milljarða kr. sem nær til 100 þús. heimila. Um er að ræða almenna aðgerð en ekki sértæka.

Ég fer aldrei í felur með það að ég hefði gjarnan viljað sjá þakið hærra í beinni niðurfellingu húsnæðisskulda fyrir þá sem eru hvað verst staddir. Í verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála er unnið að mörgum mikilvægum málum og verður sú vinna kláruð í lok þessa mánaðar og þá skilar hópurinn af sér tillögum sínum. Þar er unnið að verðtryggingarmálinu, unnið er bæði út frá meirihlutaáliti verðtryggingarhópsins og einnig út frá séráliti Vilhjálms Birgissonar.

Mín skoðun er sú að mikilvægt sé að verðtryggingin verði afgreidd samhliða skuldaleiðréttingarfrumvörpunum og verði afnumin um leið og niðurfelling húsnæðisskulda fer fram. Í þessari verkefnisstjórn er einnig unnið að nýju húsnæðislánakerfi. Jafnframt er unnið að því að koma hér upp öruggum leigumarkaði og horft er til þess hvernig við getum lækkað leigukostnað. En mikilvægt er að allir hafi val um búsetuform, þ.e. um séreign eða leiguhúsnæði. Unnið er að lausnum í félagslegum húsnæðismálum. Lyklafrumvarp er inni á borði verkefnisstjórnarinnar og eins og með alla aðra vinnu hópsins koma tillögurnar fram í lok þessa mánaðar.

Í desember samþykktu þingmenn að fresta nauðungarsölum fram í september 2014. Í janúar samþykktu þingmenn fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta. Í gær voru lögð fram tvö mál á þingi sem eru heimilunum í hag, þau koma frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Annað þeirra varðar húsaleigubætur til þeirra sem misst hafa íbúðir sínar á uppboði og leigja þær til búsetu, en það hefur ekki verið heimilt hingað til.

Hitt varðar umboðsmann skuldara og heimild til þess að sekta fjármálastofnanir ef þær draga eða neita að afhenda embætti hans upplýsingar um mál sem unnið er að. Umræðan um að ekkert sé verið að gera fyrir heimilin er ósanngjörn að mínu mati. Við verðum að horfa á heildarmyndina.