143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er kominn hingað upp til að gleðja hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar á þessum fallega degi enda skynjaði ég hjá þeim ákveðna depurð um kvöldmatarleytið í gær þegar þeir stigu hér í pontu og höfðu áhyggjur af því að hugsanlega kæmi skuldaleiðréttingin ekki til framkvæmda ef málið yrði ekki á dagskrá þingsins í dag.

Hér koma góðu fréttirnar. Stjórnarandstaðan getur verið alveg róleg, hún mun fá leiðréttingu húsnæðislána sinna þó að málið sé ekki á dagskrá fyrr en á morgun. Það breytir engu um þá ætlan ríkisstjórnarinnar að fólk geti sótt um skuldaleiðréttingu í maímánuði þannig að hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Árni Páll Árnason og þið hin, þið eruð ekki að missa af neinu. Það er loforð ríkisstjórnarinnar til ykkar og það er ekki aprílgabb.

Umræðan um skuldaleiðréttinguna hefur annars farið í hringi hjá stjórnarandstöðunni. Fyrst var talað um að verið væri að lofa glæfralegum upphæðum sem ekki væru til. Núna snýst umræðan hjá þessu sama fólki um að ekki sé gengið nógu langt. Hvað vilja hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem hér sitja? (ÖS: Ekki …) Ég skal segja ykkur það. (Gripið fram í.) Ég skal segja þér það, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. (Forseti hringir.) Það afhjúpaðist nefnilega hjá ráðherrum síðustu ríkisstjórnar: Meira verður ekki gert fyrir heimilin í landinu. (Gripið fram í.) Þetta sögðu hæstv. fyrrverandi ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. (Gripið fram í.)

Meira verður ekki gert fyrir heimilin í landinu. (GuðbH: Það sagði Sjálfstæðisflokkurinn líka.) Þetta er skjaldborgin sem þetta sama fólk lofaði. Étið það sem úti frýs, var sagt við almenning.

Aðgerðirnar núna munu ná til um 100 þús. heimila og nema allt að 150 milljörðum kr. Verið er að bæta þann forsendubrest sem varð í hruninu. Það er verið að efna kosningaloforð. Málið er ekki flóknara en það.

En stjórnarandstaðan getur farið að sofa með bros á vör í kvöld. Hún mun fá sína leiðréttingu eins og aðrir landsmenn. Þeir sem harðast hafa talað gegn skuldaleiðréttingum ríkisstjórnarinnar hér á þingi verða eflaust fyrstir til að sækja um hana. Þannig er nefnilega Ísland í dag.