143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki að undra að mest lesna fréttin nánast um allan heim og á fréttavefnum mbl.is í gær sé um nýja skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Ég hef áður kvatt mér hljóðs í þessum ræðustól til að fjalla um þetta málefni og alvarleika þess og vil nota þetta tækifæri til að gera það enn og aftur núna þegar ný skýrsla liggur fyrir. Ég hvet íslensk stjórnvöld til að leggja allt sitt af mörkum í þessu máli og eftir öllum leiðum.

Í skýrslunni segir að áhrif hlýnunar jarðar vegna aukinnar mengunar af mannavöldum, sem helst lýsa sér í öfgum í veðri, verði harkaleg og útbreidd á næstu áratugum en með aðgerðum sé enn hægt að draga úr skaðanum. Það er haft eftir John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að ekki megi hunsa þær viðvaranir sem fram koma í skýrslunni, það sé ekki lengur hægt að bíða og sjá.

Það sem okkur Íslendinga varðar sérstaklega um í þessu sambandi er samdráttur fiskveiða en í skýrslunni segir að á hitabelti jarðar eða á heittempraða belti eigi þær eftir að dragast saman um allt að 50% á sumum hafsvæðum vegna breytinga á hita- og sýrustigi sjávar. Höfundar skýrslunnar hvetja stjórnmálaleiðtoga um allan heim til að axla ábyrgð og bregðast strax við vandanum og ég skora á Alþingi Íslendinga að verða við þeim tilmælum.