143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er alveg hægt að tala áfram um þessi mál og velta fyrir sér af hverju fjármálaráðherra sjái sér fært að mæla fyrir tveimur öðrum málum hér í dag en ekki stóru málunum. Hér eru tvö mál á dagskrá sem hann þarf að vera viðstaddur og mæla fyrir.

Ég ætla aðeins að fara í aðra umræðu en aprílgabbið og skuldamálin og segja ykkur frá því að okkur í fjárlaganefnd barst í dag bréf frá áhyggjufullum starfsmanni Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem hann veltir því fyrir sér hvers vegna innri umræða skólans sé ekki meiri, frjórri eða uppbyggilegri og telur að þar ríki uppgjöf og vonleysi. Þar var haldinn fundur í gær og hann lýsir því hvernig rektor hefði lýst framtíðarstöðu skólans með því að einungis stæðu til boða, í líkingamáli, gull og grænir skógar eða eymd og volæði.

Ég ræddi það hér fyrir ekki löngu að svo virtist sem nægt fé væri til ráðstöfunar ef skólinn vildi sameinast Háskóla Íslands en ráðherra vildi svo sem ekki útfæra neitt við gerð fjárlaga í haust. Ef um hundraða milljóna króna fjárveitingu er að ræða til að hægt sé að sameina skólana hlýtur það að þurfa að koma fyrir fjárlaganefnd og Alþingi til samþykktar.

Við höfum rætt hér eldri skuldir stofnana og það að sumar þeirra hafi í gegnum tíðina fengið þær niðurfelldar en aðrar hafi þurft að endurgreiða. Skilaboðin til landbúnaðarháskólans eru að ef ekki verður af sameiningu þurfi að borga upp skuldahalann — en hvernig varð þessi skuldahali til? Við vitum að það liggur fyrir að við sameiningu þriggja stofnana á Reykjum, Hvanneyri og Keldnaholti var ekki gengið frá þeim fjárhagsvanda sem þessar stofnanir áttu við að etja. Ef stofnanir sameinast eiga þá fjárheimildirnar sem rætt hefur verið um að fara í að endurgreiða uppsafnaðan halla eða í starfið sjálft? Því hefur ekki verið svarað. Vissulega er nauðsynlegt að skólinn haldi sig innan ramma fjárlaga en til þess þarf að eiga sér stað umræða um stefnumörkun skólans með starfsfólkinu og nærsamfélaginu hvernig skólinn getur þróast áfram sem sjálfstæð stofnun eða innan HÍ.

Það er alltaf mikilvægt og vænlegra til árangurs að hafa starfsfólk stofnana með þegar lagt er af stað með viðamiklar breytingar. Því er afar miður að heyra starfsfólk (Forseti hringir.) skólans upplifa sig og vitna ég nú beint, virðulegi forseti, í fyrrgreint bréf, „gáttað, uppgefið, lamað, orðlaust“ og fleiri (Forseti hringir.) viðlíka hugtök gætu átt við.