143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef aðeins verið að fylgjast með umræðunni í dag og undanfarna daga, kannski undanfarnar vikur og mánuði þegar kemur að þeim málum sem áttu að vera hér til umræðu. Ég verð að viðurkenna að ég á svolítið erfitt með að átta mig á hv. stjórnarandstöðu. Fyrir kosningar og líka eftir kosningar gagnrýndu hv. stjórnarandstöðuflokkar stjórnarflokkana, sérstaklega annan, fyrir að vera með glæfraleg kosningaloforð. Síðan er viðkomandi hæstv. ríkisstjórn gagnrýnd fyrir að ætla ekki að framkvæma þessi glæfralegu kosningaloforð. Þegar kemur að því að framkvæma þau eru þau ekki nægjanlega stór, væntanlega ekki nægjanlega glæfraleg ef við tökum sjónarmið hv. stjórnarandstöðu. (Gripið fram í: Hvor flokkurinn …?)

Síðan gagnrýna þau, hvorki meira né minna en undir liðnum fundarstjórn forseta, að þessi kosningaloforðafrumvörp, sem eru ekki nógu glæfraleg að mati stjórnarandstöðunnar, séu rædd á miðvikudegi en ekki þriðjudegi.

Það góða í þessu er samt sem áður að það er alveg ljóst miðað við framgang hv. stjórnarandstöðu að málefnin fá góðan framgang. Hv. stjórnarandstaða hefur mikinn áhuga á málinu, hefur áhuga fyrir að það fari til nefndar og fái góða umfjöllun. Ég fagna því. Ég kýs að líta svo á að óþolinmæði hv. stjórnarandstöðu sé merki um að þetta mál muni vinnast vel og að hér verði ekki nokkur skapaður hlutur eins og málþóf heldur förum við í að vinna þetta verkefni eins vel og mögulegt er.

Ég þakka hv. stjórnarandstöðu fyrir yfirlýsingar í þá veru.