143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna framlengingar á gildistíma samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms. Á árinu 2014 veitir ríkissjóður framlag að fjárhæð 520 millj. kr. til tónlistarkennslu á vegum sveitarfélaga. Á móti taka sveitarfélög tímabundið yfir verkefni frá ríki sem nema 230 millj. kr. á ársgrunni.

Í frumvarpinu er lagður lagagrundvöllur að framhaldi tímabundinnar tilfærslu eftirfarandi verkefna frá ríki til sveitarfélaga á árinu 2014 í samræmi við viðauka við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011, en viðaukinn var undirritaður 5. mars 2014. Þá er hér upp talið:

1. Fjármögnun endurmenntunarsjóðs grunnskóla, samanber ákvæði til bráðabirgða II við lög um grunnskóla, nr. 91/2008.

2. Fjármögnun og rekstur námsgagnasjóðs, samanber 6. gr. laga um námsgögn, nr. 71/2007.

3. Fjármögnun varasjóðs húsnæðismála, samanber samkomulag frá 23. nóvember 2010.

Í 2.–4. gr. frumvarpsins sem hér er lagt fram er kveðið á um framhald á tímabundinni fjármögnun ofangreindra verkefna með því að framlög sveitarfélaga verði innheimt af úthlutun framlaga jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári. Önnur verkefni sem sveitarfélögin fjármagna áfram tímabundið á yfirstandandi ári og kalla ekki á breytingar á sérlögum eru talin upp í 5. gr. frumvarpsins sem fjallar um bráðabirgðaákvæði við lög um tekjustofna sveitarfélaga. Um er að ræða eftirfarandi verkefni:

1. Sumardvalarheimili í Reykjadal, samanber fjárlagalið 08-809-1.35.

2. Tölvumiðstöð fatlaðra, samanber fjárlagalið 08-809-1.15.

3. Vistheimilið Bjarg, samanber fjárlagalið 08-809-1.36.

Framangreind verkefni tengjast samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga en af ýmsum ástæðum voru þessi verkefni þá undanskilin við gerð heildarsamkomulags um þá verkefnatilfærslu. Gert er ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga innheimti kostnað vegna þeirra af úthlutun framlaga jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

Tilurð frumvarps þessa má rekja til samkomulags ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritað var hinn 13. maí sl. um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms sem framlengt hefur verið til 31. desember 2014 með viðauka frá 5. mars 2014. Í samkomulaginu var lagður grundvöllur að eflingu tónlistarnáms með aðkomu ríkissjóðs að kennslukostnaði í tónlistarskólum sem gerir nemendum kleift að stunda framhaldsnám í hljóðfæraleik og mið- og framhaldsnám í söng óháð búsetu. Jafnframt var í samkomulaginu og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þess leitast við að jafna aðstöðumun annarra nemenda til tónlistarnáms óháð búsetu með því að jöfnunarsjóður greiði hluta kennslukostnaðar á móti því sveitarfélagi þar sem nemandinn á lögheimili.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.