143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans fyrir málinu þótt ég viti ekki hvort viðeigandi sé að ræða jafn mikilvægt málefni á þessum ágæta degi, 1. apríl.

Málefni tónlistarskólanna hafa auðvitað verið í nokkrum ágreiningi milli ríkis og sveitarfélaga um nokkurt skeið og ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hann telji ekki úrbóta þörf á þessari umgjörð. Þá vil ég einkum nefna tvo þætti málsins sem eru annars vegar ábyrgðin á framhaldsskólastiginu í tónlistarnámi, hvort ekki sé eðlilegt þar sem tónlistarnámið er orðið hluti af framhaldsskólanámi hjá fjölda framhaldsskólanema að sá sem rekur og ber ábyrgð á framhaldsskólanum, þ.e. ríkið, axli ábyrgð á framhaldsskólanáminu í tónlist eins og í öðrum greinum og það sé ekki með einhverjum öðrum hætti með það farið. Hins vegar, og það lýtur að hinni lagalegu umgjörð tónlistarnámsins, hvort hana þurfi ekki að skerpa betur þannig að þeim miklu framlögum sem fylgja úr ríkissjóði fylgi líka ákveðin réttindi fyrir börn í landinu til að njóta náms á þessu sviði þannig að tryggt sé að skattfénu sé ráðstafað á réttlátan hátt og það komi sannarlega vel í almannaþágu.