143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri það á máli hv. þingmanns að það er ýmislegt annað sem hann vill ræða en bara það frumvarp sem hér er til umræðu. Ég ætla þó að halda mig að meginstofni til við að svara því sem að frumvarpinu snýr. Ég hlýt þó að segja að það er ekki svo, af því að hv. þingmaður nefndi málefni Landbúnaðarháskólans, að einhverjar kröfur séu um einhvern stórfelldan niðurskurð þar aðrar en bara þær að skólinn haldi sig innan þeirra fjárheimilda sem Alþingi hefur lagt fram með fjárlögum. Það er auðvitað fyrsta krafan þar.

Einnig hafa Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneyti bent á þann mikla halla sem hefur myndast þarna á undanförnum árum og hleypur á hundruðum milljóna. Ætli það sé ekki einhvers staðar í kringum 760 millj. kr. sem farið hefur verið fram úr umframfjárheimildum Alþingis? En það er önnur umræða.

Umræðan núna snýr að því verkefni sem hér er og hv. þingmaður spyr hvers vegna samkomulagið sé ekki til lengri tíma. Það er rétt sem hv. þingmaður setur fingur á og bendir á að það er ákveðinn núningur í málinu. Það er ákveðið vandamál undir sem snýr að samstarfi ríkisins og sveitarfélaganna. Til dæmis er uppi sú túlkun af hálfu eins sveitarfélagsins að með því að ríkið komi með þessa fjármuni geti það sveitarfélag dregið til baka sína fjármuni. Einungis ríkið eigi þá að sjá um að greiða fyrir alla þessa þjónustu. Það var auðvitað aldrei tilgangurinn af hálfu ríkisvaldsins. Ríkisvaldið ætlaði sér aldrei að nálgast málið með þeim hætti. Það vildi bæta við fjármunum til að liðka til, til þess að nemendur gætu farið á milli sveitarfélaga og til væri kerfi sem tæki á því til að bæta sveitarfélögum það upp. Til þess voru refirnir skornir.