143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar gæði tónlistarnámsins þá er verkefnið, eins og hv. þingmaður benti reyndar sjálfur á, á forræði sveitarfélaganna. Við á Alþingi getum sett lagaramma og síðan eru settar námskrár og önnur viðmið sem þarf að vinna eftir, en fyrst og síðast er verkefnið á hendi sveitarfélaganna.

Ástæðan fyrir því að við horfum einungis til eins árs er m.a. það sem ég nefndi; það er ákveðinn núningur hér á milli sem þarf að leysa úr. Það þarf að leysa úr honum áður en kemur til þess að samkomulagið rennur út eða við höfum með lögum eða öðrum aðgerðum leyst þar úr og komið skipan á málin sem við erum sátt við og samkomulag er um. En ég er sammála hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, rétt eins og ég er sammála hv. þm. Helga Hjörvar, um að þetta nám og það hvernig okkur hefur tekist að byggja það upp er gríðarleg eign fyrir samfélagið. Það er mjög verðmætt að börn alls staðar á landinu eigi gott aðgengi að tónlistarnámi. Ég tel að í fyrsta lagi sé það mannbætandi og í það minnsta opni það heim tónlistarinnar og gefi þar með þeim einstaklingum betra færi á að njóta tónlistar í lífinu. Þar fyrir utan — og það er gríðarlega mikilvægt — tel ég að nám í tónlist hafi jákvæð áhrif á annað nám. Það hjálpar mjög þeim einstaklingum sem velja sér tónlistarnám ásamt öðru námi til að stunda það nám sem þeir kjósa. Síðan skiptir sérstaklega miklu máli varðandi framhaldsnám og þá einstaklinga sem ætla sér að leggja tónlist fyrir sig sem starf og leggja tónlist fyrir sig sem atvinnumennsku að við tryggjum (Forseti hringir.) að það sé til umgjörð og öruggur vettvangur fyrir slíka nemendur til að geta blómstrað.