143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að halda samskiptum opnum á milli sveitarfélaga og ríkisins hvað þessi mál varðar. Það er forsaga þarna að baki og mikið hefur oft borið á milli þegar menn hafa rætt þessi mikilvægu mál. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan er tónlistarnám og -kennsla mjög mikilvæg fyrir samfélag okkar og auðvitað líka fyrir einstaklingana sjálfa sem læra á hljóðfæri.

Fyrir tugum ára spruttu upp litlir tónlistarskólar í smærri bæjum þar sem tónlistarfélög tóku sig saman og stofnuðu skóla með styrk frá sveitarfélaginu. Núna er það þannig að í flestum bæjum á landinu er forskóli frír og aðgengi að tónlistarnámi nokkuð gott í þéttbýli sem skiptir mjög miklu máli því að það er auðvitað aðgengið sem stýrir því hvernig framhaldið verður. Það er svo mikilvægt að þeir sem eru búnir að fara í það nám sem boðið er upp á í heimabyggð geti sótt í stærri skóla og haldið áfram námi sínu. Það er algjörlega óumdeilt hversu mikilvæg músíkin er fyrir hagkerfið á Íslandi og hvað hún gefur okkur mikið.

Fyrir rúmum tíu árum var annað samkomulag á ferðinni sem gekk út á það að nemendur í framhaldsskólum komu með skírteini frá tónlistarskólum og framhaldsskólarnir mátu síðan einingarnar til lokaprófs. Ríkið greiddi þá fyrir þær einingar sem voru metnar. Þetta hljómar ágætlega. Það er vit í því að ríkið greiði fyrir þann hluta framhaldsskólanámsins sem kemur frá tónlistarskólunum svo að sveitarfélögin haldi því ekki uppi.

Það voru hins vegar hnökrar á því samstarfi. Eitt af vandamálunum var nemendabókhald tónlistarskólanna sem var ekki eins nákvæmt og nauðsynlegt var til að geta undirbyggt svona talningu á einingum og þessi samskipti milli ríkis og sveitarfélaga. Nú þekki ég ekki nákvæmlega þá sögu en alla vega gekk það samstarf ekki upp og það slitnaði upp úr því. Sem betur fer var tekið upp samstarf og samtal áfram. Áður en það samkomulag sem gert var í maí árið 2011 kom til þurftu þau ungmenni sem vildu sækja í framhaldsnám í tónlist að sækja um styrk til síns sveitarfélags sem þurfti síðan að borga með þeim inn í tónlistarskóla sem annað sveitarfélag rak. Það var þá undir hælinn lagt hvernig þetta færi og jafnvel komið undir því hvernig sveitarfélagið stóð svona almennt hvernig það hagaði sér í þessum málum. Það var því ákaflega mikilvægt fyrir þessa nemendur að aðgengið væri ekki heft með neinum hætti og þessum samskiptum var komið á.

Það samkomulag sem nú er verið að framlengja, undir það var ritað 13. maí 2011, um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðu nemenda til tónlistarnáms. Það var nokkuð ljóst þegar hv. allsherjar- og menntamálanefnd afgreiddi síðan málið — allir stóðu að baki þeirri afgreiðslu þó að þrír hv. þingmenn hafi þar verið með fyrirvara — að einhver núningur var þarna á milli, einhverjar forsendur sem voru ekki eins og gert hafði verið ráð fyrir þegar samkomulagið var undirritað. Það var einkum tvennt, það var fjöldi nemenda og kjarasamningar sem sveitarfélögin höfðu gert við tónlistarskólakennara í millitíðinni. Þarna var ljóst að strax var kominn einhver núningur á þessum nokkru mánuðum, frá maí til desember, þegar nefndin afgreiddi nefndarálitið, en mælti samt með því að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Inn í samkomulagið var skrifað að viðræður ættu að verða um endurskoðun og þær ættu að hefjast fyrir 1. júní 2012. Búið var að gera ráð fyrir því að einhverjar viðræður yrðu og nefndin gerði ráð fyrir að formlegar viðræður milli ríkis og sveitarfélaga, um endurskoðun samkomulagsins vegna breyttra forsenda, færu fram sem fyrst og fyrir þennan tíma sem tilgreindur var.

Nefndin lagði líka í desember 2011 á það áherslu að tryggt yrði mat og eftirlit með því hvernig framlög ríkisins og markmið samkomulagsins væri útfært, að það væri öruggt að þarna væri eftirlit og samtal á milli. Auðvitað fór samtalið af stað og menn voru ekki alveg sammála um hvernig ætti að útfæra þetta allt saman. Jú, vissulega var það rétt að sumir skólar töldu rekstur sinn vera það slæman, af því að það voru fleiri nemendur og kjarasamningurinn kom betur út hjá einum skóla en öðrum — en það var ekki þannig að hægt væri að slá reglustiku yfir skólann og segja: Út af þessu samkomulagi, út af þessum forsendubresti eru allir skólarnir í vandræðum. Það var ekki þannig, þannig að það þurfti að kíkja betur á nemendabókhaldið, rekstur hvers skóla fyrir sig. Það er auðvitað ákveðið vandamál, eins og hæstv. ráðherra hefur bent á, þegar peningur er lagður til reksturs frá ríkinu en það eru sveitarfélögin sem bera ábyrgð á honum. Þá má búast við að þarna verði núningur.

Það er von mín að fundið verði út úr þessu. Gert er ráð fyrir að þessi breyting sé tímabundin, eins og fram hefur komið hér í ræðum og andsvörum, þetta samkrull sem mér finnst kannski alveg ganga upp. Ég vona að það verði skoðað í áframhaldandi vinnu með þetta. Annars vegar er talað um styrk eða framlag upp á 520 millj. kr. á árinu 2014 og það er í samræmi við gildandi fjárlög og allt í besta lagi með það. En einnig er talað um að sveitarfélögin, eins og áður var, í fyrra samkomulagi, skuldbindi sig áfram til að standa tímabundið straum af verkefnum sem áður voru fjármögnuð af ríkinu og nema framlögin þeirra um 230 millj. kr. á ársgrundvelli. Miðað er við að þau framlög renni til Tölvumiðstöðvar fatlaðra, endurmenntunarsjóðs grunnskóla, námsgagnasjóðs, sumardvalarheimilisins í Reykjadal, vistheimilisins Bjargs og varasjóðs húsnæðismála.

Ég vil vara við því að í svona samkomulagi sé verið að blanda öðrum málum inn. Þau eru svo sannarlega tímabundin og þar með allt samkomulagið, því að þetta er allt saman krullað saman. Ég held að betur færi á því ef starfsemi tónlistarskólanna yrði bara tekin og horft á hana út frá hag nemenda, sem um leið er þá hagur samfélagsins, og tryggja eins og kostur er aðgengi þeirra nemenda sem vilja mennta sig betur eða áfram miðað við það sem boðið er upp á í þeirra heimabyggð, að það væri svona útgangspunkturinn. Málið er flókið. Ég hef fengið að fylgjast með þessum samskiptum núna í rúman áratug, hef skoðað þau út frá framhaldsskólunum og reyndar ráðuneytinu um tíma og svo aftur hér; ég veit að þetta er viðkvæmt, ég held að það muni einfalda stöðuna ef færri verkefnum er blandað inn í málin.

Það er sannarlega von mín að þarna náist samkomulag sem getur haldið til lengri tíma, sem er gegnsætt, sem gagnast nemendum eins og kostur er, og skapar um leið sátt á milli sveitarfélaga og ríkisins í þessum efnum. Ég óska hæstv. ráðherra velfarnaðar í því máli.