143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sem komið er fram frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Lögin verða tímabundin en hafa þó vonandi áhrif lengur en gildistíminn gerir ráð fyrir. Þarna er í raun verið að festa í lög og þannig staðfesta samkomulag sem gert var 2011 um að ríkið kæmi að því að styðja við tónlistarnám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsskólastigi. Það samkomulag, sem bar yfirskriftina „Samkomulag um eflingu tónlistarnámi og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms“, var búið að vera mjög lengi í bígerð og var angi af mun stærra máli sem var vinna við endurskoðun laga um tónlistarmenntun.

Við hæstv. ráðherra áttum ágætissamtal í gær í fyrirspurnatíma þar sem við ræddum fyrirkomulag fjárhagslegs stuðnings við listdansmenntun, bæði á framhaldsskólastigi og á grunnstigi. Auðvitað leiða slíkar umræður í ljós að við erum ekki nægilega langt á veg komin með að horfa á listnám og listgreinakennslu heildstætt og horfa á lagaumhverfi og fjárhagslegt umhverfi heildstætt. Það má hins vegar segja að saga tónlistarskóla og tónlistarnáms á Íslandi sýni hversu gríðarlega miklu máli öflugt tónlistarnám, öflug tónlistarkennsla skiptir. Það er engin tilviljun hvað við Íslendingar höfum náð miklum árangri í sköpun tónlistar og flutningi tónlistar, svo dæmi sé tekið. Þar nægir að nefna þá sinfóníuhljómsveit sem við eigum, sem er á heimsmælikvarða þrátt fyrir að vera hér í þessu örríki. Það nægir að nefna alla þá tónlistarmenn sem hafa náð stórkostlegum árangri á alþjóðavísu, hvort sem við horfum til þeirra þekktustu eins og Bjarkar eða Sigur Rósar og fleiri eða þeirra sem hafa komið á eftir, Of monsters and men, og svo mætti lengi telja.

Ég var stundum spurð að því, og væntanlega núverandi hæstv. ráðherra líka, hvernig á því stæði, hvort þetta væri frumkrafturinn úr íslensku eldfjöllunum sem birtist í tónlistarmönnunum. Mitt svar var alltaf: Það er skólakerfið, það er menntunin sem skiptir öllu máli. Það er hún sem leggur grunninn, veitir fólki nauðsynlega hæfni og nauðsynlegan skilning sem þarf á tónlistinni og byggir um leið upp það sjálfstraust sem þarf til að fara í eigin sköpunarleiðangur og nýta menntun á þann feikilega fjölbreytta hátt sem við sjáum.

Ég var aðili að því samkomulagi sem hér er verið að festa í lög og átti afskaplega marga fundi um það. Þetta er flókið, og það hefur komið fram, bæði hjá hæstv. ráðherra og hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, þegar kemur að verkaskiptingu ólíkra aðila. Samkomulagið var undirritað skömmu áður en tónlistarhúsið Harpa var opnað og hluti af því sem ýtti við fólki þar var tilhugsunin um nauðsyn þess að ríkið kæmi að því að efla tónlistarnám á framhaldsskólastigi sem er eðlileg verkaskipting miðað við að ríkið reki almennt framhaldsskólastig í landinu, að stuðningurinn komi inn í gegnum það. Það sem ýtti á það var að þarna var verið að opna hús sem vissulega var umdeilt. Ég er sannfærð um það eftir á að það var rétt ákvörðun en það var umdeild ákvörðun á erfiðum tíma í þjóðfélaginu og margir sögðu: Við erum að opna hús og á sama tíma horfum við á tónlistarskólana í landinu í vandræðum. Mér fannst það mjög réttmæt gagnrýni á þeim tíma. Hér var verið að opna hús en hver átti að vera í því eftir 20 ár? Tónlistarnemarnir sem eru núna í námi. Þess vegna var þetta líka gríðarlega mikilvægt, af því að margir tónlistarskólar voru í verulegum vandræðum.

Eitt af markmiðum samkomulagsins var, og þá sögu þekki ég líka ágætlega eða þann aðdraganda, að vistarböndunum svokölluðu yrði aflétt, þ.e. að nemendur gætu farið á milli sveitarfélaga í tónlistarnámi. Það er gaman að segja frá því að á þeim tíma var ég ásamt núverandi hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og fleira góðu fólki í fræðsluráði Reykjavíkur. Þessi vistarbönd voru sett á þeim tíma og það stafaði af deilum milli sveitarfélaganna um hver ætti að sjá um að fjármagna tónlistarnám. Þetta er ekki nýtt mál þegar við horfum upp á verkaskiptingu, bæði milli sveitarfélaga og síðan milli ríkis og sveitarfélaga. Það hefur lengi verið í umræðunni og afsprengi þeirrar umræðu á þeim tíma var að vistarböndin komust á. Ég segi alveg hreint út að það hafði gríðarlega erfiðleika í för með sér fyrir marga tónlistarnema og var eitt af markmiðum samkomulagsins að aflétta þeim vistarböndum og hefur það gengið eftir. Þess vegna segi ég: Það er mjög mikilvægt að við fórnum ekki þeim árangri sem náðist með samkomulaginu og byggt verði á honum og unnið áfram. Eins og hæstv. ráðherra benti á fylgja því ákveðnir erfiðleikar að ríkið fjármagni að hluta skólastig en umsjón þess skólastigs sé í höndum sveitarfélaganna, nemendabókhaldið sé í höndum sveitarfélaganna, öll yfirsýn sé í höndum sveitarfélaganna.

Lögum samkvæmt fara sveitarfélögin með tónlistarnám. Því hefur ekki verið breytt. Ég leit svo á að stuðningur ríkisins væri til eflingar, hann væri pólitísk ákvörðun, að ríkið væri reiðubúið að styðja sveitarfélögin til að standa vel að tónlistarnámi sem er gríðarlega mikilvægt. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að fara yfir mikilvægi þess. Við erum örugglega öll sammála um það sem hér erum inni. En lögbundinni skiptingu hefur ekki verið breytt. Þess vegna langar mig að nýta tækifærið. Ég sé að hæstv. ráðherra hefur óskað eftir að koma í andsvar og mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvert framhaldið verður. Ég veit að frumvarp um heildarskipulag tónlistarnáms hefur lengi verið í smíðum. Það var í smíðum áður en ég varð ráðherra fyrir mörgum árum og það var í smíðum meðan ég var ráðherra og það er örugglega enn í smíðum hjá núverandi hæstv. ráðherra. Þá velti ég því fyrir mér hver örlög þess verða í framhaldinu. Sér hæstv. ráðherra fram úr því að hér komi fram frumvarp um þetta heildarskipulag? Er kannski ástæða til að ganga lengra en gert hefur verið ráð fyrir í þeim drögum og horfa upp á lögbundna verkaskiptingu milli skólastiga hjá ríki og sveitarfélögum og gæti það þá jafnvel verið til eftirbreytni fyrir annað listnám? Ég vísa þá aftur í listdansnámið og kennsluna sem við ræddum í gær.

Það er auðvitað stór og róttæk breyting. Ég ætlast ekki til þess að hæstv. ráðherra svari því vegna þess að sú breyting mundi kalla á verulegar breytingar, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru margir sjálfstæðir skólar sem reka og kenna á ólíkum stigum. Það er ekki eins og við séum að byrja með óskrifað blað og getum farið í það að ríkið stofni framhaldstónlistarskóla fyrir framhaldsskólastigið. Það er alveg ljóst að það er flókið. Það kynni þó að vera eðlilegra ef við horfum upp á að ríkið haldi fjárhagslegum stuðningi sínum áfram og líka af því að við höfum séð það í túlkuninni á samkomulaginu að það hefur orðið misbrestur á því að skilningur sé sameiginlegur. Nú er það Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerði þetta samkomulag við ríkið á sínum tíma og það kom fljótlega í ljós, eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir nefndi, að forsendur á þeim nemendafjölda sem lá á bak við voru ekki alveg nógu skýrar og þess vegna var samkomulagið líka stundum í krónutölu. Það var ekki byggt upp þannig að það ætti að fjármagna kennslu tiltekins fjölda nemenda heldur var byggt á þeim nemendafjölda sem talið var samkvæmt upplýsingum sveitarfélaganna að væri í tónlistarnámi og ákveðin krónutala sett á samkomulagið út af því. Ég hef gert það að umræðuefni til að mynda á fundi með borgarfulltrúum Reykjavíkurborgar að þar er annar skilningur uppi en var alveg örugglega uppi, að mínu viti, af hálfu ríkisins og líka af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort menn hafi færst eitthvað nær hver öðrum í þeim skilningi af því að það kom upp að Reykjavíkurborg lagði talsvert annan skilning en önnur sveitarfélög í samkomulagið sem birtist í því að Reykjavíkurborg taldi að með samkomulaginu hefði verkefni sem lögum samkvæmt liggur hjá sveitarfélögunum verið fært yfir til ríkisins. Það var auðvitað ekki gert. Það var engin lagabreyting sem fylgdi samkomulaginu og þetta frumvarp felur ekki í sér slíka breytingu.

Mig langar að nota tækifærið til að segja að ég mun styðja þetta mál og vænti þess að umfjöllun hv. allsherjar- og menntamálanefndar leiði í ljós, og mér sýnist það við fyrsta lestur, að þetta sé hið besta mál. Mig langar að spyrja um tvennt og það er annars vegar framtíðin, stóra heildarmyndin og hvort við sjáum fram á að við fáum eitthvert frumvarp í hendur til að mynda á næsta þingi, hvort sú vinna sé komin eitthvað áfram, því að sú vinna hlýtur að fela í sér hina spurninguna sem ég nefndi, að það sé sameiginlegur skilningur allra sveitarfélaga og ríkisins í því hvernig þessum fjárhagslega stuðningi er varið. Það höfum við séð og það höfum við heyrt, til að mynda þingmenn Reykjavíkur, frá tónlistarskólanum að því miður hefur þetta samkomulag sem átti að vera til að efla tónlistarnám ekki orðið til að efla það í einstökum tilvikum í Reykjavík og það er auðvitað ekki gott. Ég nota tækifærið og spyr hæstv. ráðherra um þetta.