143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[15:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp hafi verið lagt fram og sá viðauki sem hér hefur verið gerður um framlengingu á gildistíma samkomulags milli sveitarfélaga varðandi eflingu tónlistarnáms, að búið sé að tryggja það út árið. Á sama tíma hljótum við að spyrja: Hvert verður framhaldið? Hvað er í pípunum? Hvað er í bígerð?

Nú hafa menntamál ekki verið mikið til umræðu hér í þinginu en á sama tíma er heilmikið að gerast í menntamálum úti í samfélaginu. Það hafa verið sérstakar umræður, mjög málefnalegar og góðar, þar sem tekið hefur verið á einstökum viðfangsefnum en við höfum ekki enn fengið stóru línurnar til umræðu, hvorki á Alþingi sjálfu né í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Í trausti þess að hæstv. ráðherra fari í seinni ræðu sinni aðeins yfir stöðuna almennt leyfi ég mér að spyrja eftir framtíðarsýninni og skólastefnunni, ekki hvað síst varðandi það sem hér er til umfjöllunar, sem er listnám, þ.e. tónlistarnám. Komið hefur verið inn á þá hluti í fyrri ræðum og í andsvörum ráðherra hvað sé í bígerð, þ.e. að setja þurfi samstæð lög um þetta. Eru menn að velta fyrir sér, af því að hér er um skammtímasamning að ræða, að færa þetta með formlegri færslu, þ.e. verkefnið tónlistarkennslu á framhaldsskólastigi, alfarið til ríkisins. Það hefur komið fram að ekki hefur verið tekin ákvörðun um það heldur eru þarna samningar um greiðslur sem fara á milli. Þá má um leið spyrja hvernig menn ætli að búa að listnámi.

Ég nefndi það í andsvari við hæstv. ráðherra að í gangi eru kjarasamningar. Það er afar óþægileg tilfinning að uppi í Karphúsi skuli menn vera að móta menntastefnu fyrir ríkið á sama tíma og við sitjum á Alþingi, löggjafinn, og bíðum eftir niðurstöðu sem jafnvel verður kjarasamningsbundin áður en hún kemur til umræðu. Það finnst mér að öllu leyti óeðlilegt. Mér hefði fundist miklu eðlilegra að menn hefðu farið af stað með stefnumótun, rammann, skilgreiningu, hvaða væntingar hæstv. ráðherra hefur, hæstv. ríkisstjórn og síðan Alþingi, að það hefði allt legið fyrir og síðan gerðu menn samninga á þeim grundvelli um það hvernig menn ætluðu að búa um greiðslur til að ná fram þeim markmiðum sem þar koma fram.

Gríðarlega mörgum boltum hefur verið kastað á loft varðandi skólastarfið. Í fjárlagafrumvarpinu er rætt um aukna einkavæðingu. Eru einhver slík áform í gangi? Þegar menn leika biðleiki eins og hér eru þá einhverjir slíkir hlutir á bak við? Ætla menn að fela einhverjum öðrum aðilum að sinna þessu? Við sjáum líka áform um sameiningar skóla. Það er meira að segja talað um það í hagræðingarskýrslunni að sameina eigi framhaldsskóla. Við erum að slást við sameiningu skóla þar sem verið er að ræða um Landbúnaðarháskólann.

Eins og ég kom að í andsvari áðan er komin fram greinargerð um hvernig megi hugsanlega styrkja Landbúnaðarháskólann. Því gætu fylgt peningar, bæði í fjárfestingar- og rekstrarkostnað. Ef menn ganga ekki að því verða menn að gera svo vel og borga sem nemur 35 millj. kr. á ári upp í gamlan halla og aðlaga reksturinn sem nemur annarri eins upphæð. Það þýðir uppsagnir og samdrátt. Það er afar vondur kostur en ekkert af þessu hefur í raun komið formlega fram fyrr en nú í dag í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem sá sem hér stendur óskaði eftir því að fá að heyra málflutning aðila málsins. Þar komu fulltrúar sveitarfélagsins Borgarbyggðar, fulltrúar Bændasamtakanna, fulltrúar ráðuneytisins, sem skýrðu sín sjónarmið, og síðan stjórn Landbúnaðarháskólans. Það er eiginlega fyrsta umræðan og þar kemur fram að til er fullt af skýrslum sem ég hafði sumar hverjar séð sem þingmaður kjördæmisins en hafa í raun aldrei verið lagðar fram í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég held að menn verði að fá tækifæri til að ræða þessa hluti. Það sama gildir um boðaða hvítbók sem mér finnst í sjálfu sér, og hefur alltaf þótt, mjög spennandi form, þ.e. þegar menn leggja fram greiningu á málaflokki, meginlínur um tillögur að lausnum og markmiðum og þingið fái að fjalla um það og móta stefnu og hæstv. ráðherra semji í framhaldinu lagafrumvarp eftir að málið hefur fengið lýðræðislega umfjöllun í þinginu.

Þetta virkar ekki enn og nú kann það að vera mikil kröfuharka að ætlast til þess að slíkt vinnulag sé farið að virka á jafn skömmum tíma og um er að ræða. Ég er í sjálfu sér ekki að segja að það sé ekki eðlilegt að þetta hafi tekið tíma en ég kalla eftir skoðun ráðherrans hvað það varðar hvernig hann hyggst leggja þessi mál inn í umræðuna, hvernig hann hyggst þoka henni áfram en ekki bara yfirlýsingar í fjölmiðlum um að hæstv. ráðherra ætli eitt eða annað, ætli að sameina Landbúnaðarháskólann og Háskóla Íslands og ætli að stytta nám til stúdentsprófs án þess að svara því hvernig o.s.frv. Ég treysti því að þessi umræða fari fram og ég tek þetta upp vegna þess að tækifærin hér í þingsal eru ekki mjög mörg til að ræða þetta. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra fari í seinni ræðu sinni lítillega yfir það sem er í gangi hvað varðar málaflokkinn.

Mig langar að koma aðeins betur inn á það sem fram hefur komið í umræðunni, þ.e. samskiptin við Reykjavíkurborg, það kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að verið er að bæta 40 millj. kr. inn í þennan samning, í þessum viðauka, til að mæta halla á framhaldsskólum. Hver er staðan hvað það varðar? Þó að ábyrgðin sé hjá sveitarfélögunum þá er ríkið að styrkja þetta og hver er staðan hvað varðar þann þátt?

Þá komum við líka að því sem ég ræddi í andsvarinu, sem mér finnst skipta mjög miklu máli almennt í umræðunni um skólamál og þessi tvö stjórnsýslustig sem eiga að vinna hlið við hlið — þar sem sveitarfélögin taka að sér ábyrgðina og hafa lagalega ábyrgð á því að sinna ákveðnum þáttum — þ.e. þetta eftirlitshlutverk sem ráðuneytið hefur, sem tryggir þá framboð af ákveðnum gæðum, hvort sem um er að ræða tónlistarkennslu eða grunnskólakennslu og eftir atvikum leikskólakennslu, og auðvitað það sem ríkið rekur sjálft, þ.e. framhaldsskóla og háskóla.

Kröfur hafa komið fram frá minni sveitarfélögum um að þau ráði ekki fullkomlega við verkefnið, þau vilji fá undanþágur frá lögunum og spurningin er þá hvernig bregðast eigi við því. Sjálfur hef ég ekki viljað sjá mikinn afslátt á kröfum heldur verða sveitarfélögin að sameinast um rekstur og leggja stærri svæði undir til að tryggja að hægt sé að veita góða þjónustu. Samtímis viljum við að þessi þjónusta sé í heimabyggð og nærri notendum þannig að ekki sé um að ræða akstur um langa leið. Þarna er tekist á um það, eins og ég segi, hver skyldan sé til að hafa til dæmis tónlistarskóla. Almennt hefur þetta verið forgangsverkefni hjá sveitarfélögunum, þau hafa lagt fram mikinn pening til að tryggja góða tónlistarkennslu. En það eru ótal grá svæði og mig langar að heyra ráðherra taka aðeins á þessu.

Við ræddum hér um að tónlistarskólarnir eru farnir að skila einingum inn í framhaldsskólann. Menn geta verið með valgreinar og lokið hluta af stúdentsprófi með því að ljúka einingum í framhaldsskólann. Grunnskólinn nýtir jafnframt tónlistarskóla, menn nota það sem valgreinar í grunnskólunum að stunda nám í tónlistarskóla. Þetta þýðir að gráu svæðin verða fleiri, þ.e. þar sem annars vegar eru stofnanir sem eru reknar af ríkinu og á ábyrgð ríkisins alfarið og hins vegar stofnanir sem alfarið eru á ábyrgð sveitarfélaganna. Ég held að þetta samstarf sé mjög gott, ég held að það þurfi að vera til staðar. Ég held að menn þurfi að geta nýtt sér það að stunda tónlist í grunnskóla, að það geti verið hluti af valgrein; þar með er álagið á nemendur ekki langt umfram það sem æskilegt getur talist. Það sama á við um nemendur sem stunda tónlistarnám af fullum krafti og eyði í það miklum tíma, að það sé fært til eininga á framhaldsskólastiginu. Það skiptir gríðarlega miklu máli að þetta geti haldið áfram.

Ég treysti á að ráðherra standi þannig að málum að það verði hægt. En þegar maður sér frumvarp eins og hér, sem er bara til skamms tíma, hlýtur það að vekja spurningar um hvað sé á döfinni. Það er kannski það sem varð tilefni þess að ég kom hingað upp, þ.e. ég kalla eftir því að hæstv. ráðherra komi í ræðu og geri okkur grein fyrir því hver staðan er í menntamálunum almennt. Á hverju eigum við von og hvernig verður aðkoma þingsins að þessum málum? Ég bý það vel að fá tækifæri til að fjalla um málið í allsherjar- og menntamálanefnd og kalla eftir ýmsum upplýsingum hvað varðar þetta frumvarp. Miðað við fyrstu yfirferð og kynningu á frumvarpinu þá er engin ástæða til annars en reikna með því að það gangi vel. Ég styð frumvarpið enda er um að ræða framhald af þeim samningum sem voru gerðir áður, ég treysti á að fullt samkomulag verði um það en spyr um framhaldið eftir næstu áramót.