143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[15:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þingmanns um tímaplön þau sem samkomulagið nær yfir þá er það í sjálfu sér ekkert frábrugðið að grunni til því sem var um fyrra samkomulag, að það er takmarkað í tíma. Sú ákvörðun að láta samkomulagið einungis ná til ákveðins tíma endurspeglar að menn vilja ekki festa þetta fyrirkomulag í sessi á þennan hátt, þ.e. að hjá öðru stjórnsýslustiginu sé ábyrgðin á málaflokknum t.d. um fjölda nemenda, um kjarasamninga við starfsmenn og annað slíkt sem máli getur skipt fyrir þróun kostnaðar, og síðan sé annað stjórnsýslustig sem sjái um að greiða fyrir þjónustuna. Reyndar var það svo, eins og hefur komið skýrt fram af hálfu fyrrverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, sem einnig vitnaði til hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að hugsunin af hálfu ríkisins var alfarið sú að um væri að ræða viðbótarfjármuni og ríkisvaldið væri á engan hátt að taka þar með yfir að greiða fyrir þessa þjónustu, enda getur það illa staðið að eitt stjórnsýslustig fari með alla stjórn málsins en annað greiði fyrir. Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Getur hann ekki verið sammála því að þetta fyrirkomulag þarfnist endurskoðunar við og við þurfum að svara á afgerandi hátt, t.d. að framhaldsskólastigið verði hjá ríkinu eða verði það áfram hjá sveitarfélögunum, eins og grunnskólinn, verði einhvern veginn að búa þannig um hnútana að ábyrgð og fjárveitingin fari saman?

Ég kalla eftir afstöðu hv. þingmanns til þessa.