143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[15:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra spyr hvort ekki sé ástæða til að endurskoða þetta form eða að minnsta kosti finna því farveg til lengri tíma. Ég tek heils hugar undir að þess þurfi. Ég geri í sjálfu sér enga athugasemd við að þetta sé tímabundið út árið en það er ávísun á að eitthvað annað standi til. Þá spyr ég í leiðinni: Hvernig á að standa að þeim breytingum, hvaða sjónarmið eiga að ráða og markmiðin og annað? Ég held að mikilvægt sé að festa tónlistarkennsluna í sessi til langs tíma, hvernig hún verður, hvernig hún verður tryggð í hinum dreifðu byggðum og þau skil á milli skólastiga sem ég nefndi í ræðu minni áður. Ég geri því ekki neina athugasemd við að þetta sé tímabundið en kalla eftir því hvernig eigi að vinna með framhaldið.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra varðandi tvískiptinguna, að ábyrgðin, allt regluverkið, jafnvel kjarasamningar og annað slíkt sé hjá öðrum aðilanum, að ábyrgð og greiðsla fari ekki saman þannig að annars vegar er aðili sem skilgreinir þjónustuna, formið og allt í kringum það fyrir kjarasamninga og hins vegar er það sá sem greiðir. Það er auðvitað ekki æskilegasta formið, það segir sig sjálft. Það er tímabundið ástand en ég held að ef við hugsum til tónlistarskólanna og menntunar í landinu sé mjög mikilvægt að því sé vel sinnt og þá þurfum við að komast út úr því. Ég kalla eftir því frá ráðherra að hann setji upp ferli um hvernig eigi að vinna að slíku og komi með hugmyndir um möguleika og síðar fáum við tækifæri til að fjalla um það í þinginu áður en menn taka ákvörðun um það, eða að settur verði upp faglegur hópur með öllum hagsmunaaðilum sem vinni að málinu.

Markmiðið var á sínum tíma að efla tónlistarkennslu en líka að hindra hreppaflutninga, þ.e. að endalaus viðskipti væru á milli sveitarfélaga um nemendur og togstreita um hvað ætti að borga mikið og hvernig.