143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[15:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágæt athugasemd hjá hv. þingmanni og hárrétt. Það leysir ekki vandann að við opnum vefsíður fyrir þetta, mörgum þeirra sem búa yfir þessari þekkingu er sá samskiptamáti kannski ekki mjög tamur.

Þá er til 8. gr. frumvarpsins að líta, sem hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skal vera til ráðgjafar fyrir almenning og stofnanir um söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og jafnframt um nýjar nafngiftir.“

Þá skiptir máli að þar sé nægur mannskapur til að hella upp á, til að gefa sér tíma til að tala við þá sem búa yfir þessari þekkingu. Ég veit að á þessari stofnun eru margir starfsmenn sem ég treysti vel til þessara verka og til að stýra þeim.