143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[15:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir með síðustu ræðumönnum um mikilvægi heimsókna og kaffidrykkju. Það verður seint lögð nægilega mikil áhersla á það.

Hitt hlýtur að vekja undrun, þrátt fyrir að hér sé verðugt mál á ferðinni, að ríkisstjórn Íslands skuli á þessum degi telja brýnna að mæla fyrir lagafrumvarpi um örnefni en um viðamestu tillögur sínar í skuldamálum heimilanna, um 150 milljarða aðgerðir. En það er í hendi ríkisstjórnarinnar að forgangsraða málum sínum og þetta er greinilega brýnna en skuldamál heimilanna í hennar huga.

Þegar kemur að löggjöf um nafngiftir á Íslandi velti ég því stundum fyrir mér hvort Jónas frá Hriflu sitji enn í menntamálaráðuneytinu, að minnsta kosti hvað varðar nöfn okkar mannanna. Þar er mikið um forneskju í gildandi löggjöf og alls kyns meinbægni gagnvart vilja fólks til þess að gefa sér og sínum nöfn. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að ég gat ekki ráðið það af framsögu hans fyrir málinu, hvernig hann sjái þetta með örnefnin, að samþykktri þeirri löggjöf sem hér er kynnt, hvort menn séu ekki örugglega frjálsir að því að gefa löndum sínum og jörðum þau nöfn sem þeir kjósa, eða hvort ætlunin sé að hafa miðstýrða opinbera nefnd sem menn eigi að leita til um hvort þeir megi nefna eignir sínar si eða svo.