143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[15:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp. Sá sem hér stendur er sérstakur áhugamaður um varðveislu örnefna og þau gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki. Þetta mál lætur kannski ekki mikið yfir sér, en rétt eins og ráðherrann kom inn á í síðasta andsvari sínu lifa örnefni miklu lengur en við sem hér erum. Við sjáum það í sögunni og þeim örnefnum sem þegar eru í notkun, þar er staðfestingu á því. Ég nefni til að mynda bæjarnöfn eins og Svínafell, Svínavatn, Geitaskarð, Geitaberg, Skógarströnd, Skógskot, Skógar, Stóri-Skógur, Mið-Skógur. Allt eru þetta bæir í Dalasýslu þar sem eru engin tré.

Þetta frumvarp er gott og gilt en ég hef áhyggjur af ákveðnum hlutum í því. Rétt eins og hæstv. ráðherra kom inn á hafa örnefni mikið sögulegt- og menningarlegt gildi auk þess að hafa lagalegt gildi hvað varðar staðarhætti. Undanfarin ár og undanfarinn áratug höfum við horft upp á þjóðlendumál þar sem ríkið fer hringinn í kringum landið og er þar í málaferlum við að leysa til sín land á grundvelli þjóðlendulaga sem menn telja vera einskismannsland, eins og við segjum. Þar þjóna örnefni oft og tíðum mikilvægu hlutverki í gömlum bréfum, gömlum landamerkjabréfum, staðháttabréfum og öðru.

Ef maður skoðar landamerkjabréf, sem ég hef gert, aftur í tímann í mínu héraði er oft og tíðum stuðst þar í landamerkjum við örnefni sem ég efast um að fólk á mínum aldri viti hvar eru eða að þau séu yfir höfuð til. Það er talað um að landamerki milli jarða séu frá þessum hól í áttina að þessum læk o.s.frv. Ég er viss um að í mörgum tilfellanna er ekki nokkur maður sem getur staðfest hvað viðkomandi lækir eða hólar heita.

Í dag notumst við við hnitsetningu og GPS-hnit og auðvitað er það framtíðin, en öll sú tækni og breyting gerir það að verkum að það dregur úr notkun á örnefnunum. Það dregur úr notkun á örnefnum vegna þess að við erum farin að hnitsetja allt út frá GPS-hnitum og öðru. Í rauninni er veruleg hætta á því á stórum landsvæðum að það verði einungis stóru hlutirnir sem bera örnefni sem lifa. Það eru stóru fjöllin, stóru árnar, dalir og annað slíkt, en við vitum það sem höfum farið um landið að eins og í minni heimasveit, þar sem ég þekki vel til, bera nánast allir litlir hólar nöfn, allar tjarnir bera nöfn, allir fossar í ánum bera nöfn. Ég er þó ekki viss um að allir geti rakið nöfnin og ég get það ekki, en forfeður mínir þekktu þessi nöfn. Mýrarnar bera flestar nöfn og hálsarnir þar sem mýrarnar eru á milli og svona mætti áfram telja.

Ég hef talsverðar áhyggjur af því í þessu öllu saman. Þetta frumvarp er gott og gilt eins og það er sett fram, en hér erum við að tala um umgjörðina. Við erum að tala um ný örnefni, við erum að tala um málsmeðferð, hvernig eigi að skrásetja örnefni o.s.frv. en ég hef áhyggjur af því, eins og kom fram í andsvörum áðan milli hæstv. ráðherra og hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, að þessi örnefni séu einfaldlega að deyja út. Vissulega eru erfiðir tímar í ríkisbúskapnum en margt af fólkinu sem hefur lifað með landinu og á landinu og er kannski komið á efri ár hefur gríðarlega þekkingu á ýmiss konar örnefnum á heimasvæðum sínum. Ég hef áhyggjur af því að þegar þetta fólk fellur frá glötum við þeim upplýsingum.

Ég veit þess dæmi til að mynda í Dalasýslu að einn ágætur bóndi tók sig til og fór í það að skrásetja öll örnefni á jörð sinni. Hann sýndi mér það og það kom mér gríðarlega á óvart hversu langur listinn var. Hann fór í allar gamlar heimildir, talaði við menn sem höfðu verið þarna í sveit, fyrrverandi ábúendur o.fl., og þetta voru fleiri tugir eða hundruð örnefna og búið að skilgreina nákvæmlega hvar þessi hóll var, hvað hann hét, af hverju hann hét það, af hverju þessi lækur hét þetta. En á stórum landsvæðum eru örnefnin einfaldlega að þurrkast út. Þá þurfum við að spyrja okkur: Er það æskileg þróun? Viljum við að örnefnin þurrkist út? Það mun gerast með tíð og tíma ef ekkert er gert. Það mun gerast með tíð og tíma og það verða einungis stóru hlutirnir, stóru fjöllin, stóru árnar sem munu bera nöfn. Það þarf að setja einhverja vinnu í gang við að skrásetja örnefnin.

Hér er komin umgjörðin í kringum þetta en ég hef áhyggjur af því að ekki er gert ráð fyrir því — og ég er ekki að kenna hæstv. ráðherra eða fyrri ríkisstjórn um það eða hvernig sem það er. Þetta er verkefni sem við þurfum að takast á við, vegna þess að ég held að mjög mikilvægt sé út frá menningarlegu- og sögulegu gildi að varðveita örnefni og það er líka mikilvægt út frá lagalegu eða réttarfarslegu gildi af því að landamerkjabréf o.fl. byggja á þeim. Ég hefði viljað sjá vinnu setta af stað í framhaldi af þessu frumvarpi við að hefja skrásetningu örnefna á landinu.

Ef við skoðum mál sem er í gangi núna, eins og þjóðlendumálin, þá fara þau mál ekki neitt. Jafnvel þótt þeim væri frestað í einhvern tíma og jafnvel þótt fjárveitingu og fjármagni til þeirra verkefna væri frestað fara málin ekki neitt, ekki á sama hátt og hér í það minnsta. Við horfum upp á það að dag hvern sem fullorðinn Íslendingur sem þekkir náttúruna fellur frá glötum við örnefnum.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að fara í þessa vinnu í framhaldi af frumvarpinu. Að vísu, eins og kemur fram í 8. gr. frumvarpsins, er gert ráð fyrir því að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sé til ráðgjafar fyrir almenning og stofnanir þegar kemur að því að safna örnefnum, en við vitum auðvitað að það krefst tíma og fjármagns og skipulags að safna örnefnunum. Ég held að það gerist ekki af sjálfu sér. Ég held að það séu allt of fáir sem muni finna það upp hjá sjálfum sér að fara út í feltið og segja: Nú ætla ég að skrásetja öll örnefni á landi mínu af einskærum áhuga mínum á því að öll örnefni séu skráð.

Ég held að þetta verði að gerast með einhvers konar hvatningu frá hinu opinbera, jafnvel í samráði við sveitarfélög. Ég vil segja að gríðarlega mikilvægt er að það gerist — vissulega geta verið um það skiptar skoðanir — og vil hvetja bæði nefndina sem fær þetta til umfjöllunar til að skoða málið dálítið út frá því sjónarhorni og hæstv. ráðherra til að skoða málið í framhaldinu, vegna þess að örnefnin lifa miklu lengur en við sem hér erum. Ég rakti það fyrr í ræðu minni að mörg örnefna vítt og breitt um landið bera þess merki að hafa lifað hér mann fram af manni.

Þetta frumvarp setur ágætisumgjörð utan um hvernig eigi að skrásetja og halda utan um örnefnin, en það vantar eftirfylgnina. Það er töluvert í húfi þegar kemur að því að varðveita örnefni og ég vil hvetja hæstv. ráðherra og hv. þingnefnd til að taka þetta til skoðunar.