143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[16:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vegna orða hv. þingmanns byrja á að taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi þessa verkefnis og að áður en þessi þekking fellur í gleymsku, hverfur, gerum við það sem við getum gert til þess að skrásetja hana.

Ég vil nefna það, virðulegur forseti, og vekja athygli hv. þingmanns á því að hlutverk örnefnanefndar samkvæmt a-lið 4. gr. frumvarpsins er, með leyfi forseta, „að stuðla að því að markmiðum laga þessara verði náð“.

Þá er rétt að líta til markmiðakaflans. Þar segir í a-lið að markmið frumvarpsins sé, með leyfi forseta, „að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi og tryggja að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum“.

Þetta er það markmið sem lögin hafa og verkefni nefndarinnar er þá þetta. Eins vil ég benda á að örnefnanefndin getur og henni er heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði.

Síðan hitt sem tekið er fram í 4. gr. að kostnaður af starfsemi örnefnanefndar greiðist úr ríkissjóði. Rétt er að horfa til þessa og þess sem sagt er í 8. gr. og hv. þingmaður vakti athygli á um hlutverk Stofnunar Árna Magnússonar.

Eins vil ég nefna verk eða skráningar einstaklinga sem hafa tekið það upp hjá sjálfum sér, ef svo má að orði komast, að leita eftir þessum upplýsingum og halda þeim til haga. Unnin hafa verið þrekvirki á þessu sviði víða um landið þar sem einstaklingar hafa af mikilli þekkingu og elju skráð niður örnefni, sögu þeirra og sagnir sem þeim tengjast. Það er líka þáttur þessa máls. En ég tel að með lögunum sé kominn allur rammi en er alveg sammála hv. þingmanni um að ástæða sé til að(Forseti hringir.) reyna að vinna sem mest í þessu máli.