143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[16:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og vil í fyrstu segja að hægt er að fagna aukinni upplýsingatækni og tölvutækni o.s.frv. En vissulega er það svo og ég kom inn á það í ræðu minni að veruleg hætta er á því að örnefni glatist við aukna upplýsingatækni. Við hnitsetningu á öllu landi, í landamerkjum og öðru, eru menn farnir í dag að notast í meira mæli við GPS-hnit, tölvumyndir þar sem dregnar eru línur og skrásettar samkvæmt tölum. Áður fyrr skráðu menn þau landamerki út frá örnefnum sem kannski enginn veit hver eru í dag. Örnefnin hafa þá hugsanlega glatast en eftir liggja landamerkjabréf á milli tveggja aðila þar sem þeir skipta landi á milli sín þar sem farið er eftir ákveðinni línu. Það er því veruleg hætta á að þetta glatist.

Þess vegna velti ég því upp í ræðu minni hvort það skipti kannski engu máli að glata þessum menningararfi eða hvort það væri svo að við vildum glata menningararfinum og hann skipti okkur kannski engu máli í nútímasamfélagi. Ég held að það skipti okkur gríðarlegu máli að halda honum og skrásetja þessa sögu, skrásetja örnefnin öll, vegna þess að það sem er að gerast er að hann er að glatast. Bæði vegna þess að í dreifbýli fer fólki fækkandi og að þessi nýja tækni, rétt eins og hv. þingmaður benti á, er að hluta til farin að leysa hlutverk örnefnanna af hólmi. Örnefnin gegndu miklu meira hlutverki hér áður fyrr en þau gera í dag. Mér finnst þetta því vera jákvætt mál og mikilvægt að skrásetja örnefnin vegna þess að ég held að framtíðinni sé okkur mjög mikilvægt að halda þeim. Við erum að horfa upp á aukinn ferðaiðnað með gönguleiðum o.s.frv.