143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[16:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er auðvitað mikilvægt þegar verið er að skrá örnefni að skrá annars vegar örnefnið sjálft og hins vegar staðsetningu þess, greinargóða lýsingu á staðsetningu örnefnisins, og í þriðja lagi söguna á bak við nafngiftina.

Af því að ég kom inn á það í andsvari mínu áðan hve ferðaþjónustan er að aukast á Íslandi, hún er orðin einn af máttarstólpum efnahagslífsins, þá eru ferðamennirnir sem hingað koma ekki hvað síst að skoða okkar fallegu náttúru, en þeir eru líka að skoða menningu okkar og sögu. Með auknum gönguferðum, hestaferðum o.s.frv. er lykilatriði að allar þær upplýsingar sem við eigum um örnefni landsins og sögur og annað fylgi með.

Ég kom inn á það áðan að Íslendingasögurnar varðveittust hér um árhundruð mann fram af manni. Það sama gerðist með örnefnin vegna þess að fólk notaði þau í daglegu starfi. Þegar menn gengu eða fóru á hestum milli héraða voru örnefnin notuð. Þegar menn sóttu fé á fjall voru örnefnin notuð. Á bak við þetta liggur mikil saga og menning sem við eigum að skrásetja og varðveita.

Ég tek undir með hv. þingmanni með það að mjög mikilvægt er að taka þau ekki bara upp hrá heldur söguna sem á bak við þau er. Ég vil segja að lokum að jafnvel þó að málið láti ekki mikið yfir sér gegnir það gríðarlega mikilvægu hlutverki til framtíðar litið.