143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

afbrigði um dagskrármál.

[17:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar í morgun um að leggja fram lagafrumvarp vegna Herjólfsdeilunnar skapar óvissu um stöðu sjómanna á Herjólfi og óvissu um samgöngur við Vestmannaeyjar. Það er mikilvægt að þeirri óvissu sé eytt strax og Alþingi taki svo fljótt sem verða má afstöðu til lagafrumvarpsins. Við í Samfylkingunni greiðum þessa vegna atkvæði með því að málið komist á dagskrá með afbrigðum.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að hér er um að ræða stjórnarskrárvarin mannréttindi. Það er ákaflega mikilvægt að Alþingi vandi vel til verka þegar um er að ræða lagafrumvarp sem snýr að svo mikilvægum réttindum og að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fái þann tíma sem hún þarf og geti kallað til þá sérfróðu aðila sem nauðsynlegt er til að fara vandlega yfir málið. Það að nefndin fái þau tækifæri sem hún þarf til að vinna málið vandlega mun sannarlega tryggja styttri umræður í þingsalnum.