143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[17:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingheimi og forseta Alþingis fyrir það að taka málið hér á dagskrá og þakka þingmönnum fyrir að leyfa þá afgreiðslu.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi.

Sem kunnugt er hófust verkfallsaðgerðir Sjómannafélags Íslands á Herjólfi þann 5. mars og hafa því nú staðið í mánuð. Aðgerðirnar fela í sér að vinna er stöðvuð frá klukkan 17.00 síðdegis og til klukkan 8.00 árdegis mánudaga til fimmtudaga og alfarið á föstudögum og um helgar. Kjaradeila Sjómannafélags Íslands við Samtök atvinnulífsins hefur, eins og þingheimi er vel kunnugt um, verið á borði ríkissáttasemjara síðan 27. janúar síðastliðinn, en því miður hefur ekkert þokast í viðræðunum og liggja fundir niðri. Sátt er því ekki í sjónmáli.

Þess vegna standa stjórnvöld frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að grípa inn í deiluna. Ég tek undir það með þeim sem hér töluðu áðan að það er alltaf erfið ákvörðun fyrir stjórnvöld og fyrir Alþingi að þurfa að hlutast til um þessa þætti, það er í raun og veru neyðaraðgerð. En stjórnvöld standa hins vegar frammi fyrir þeim erfiða kosti að grípa inn í þá kjaradeilu sem nú stendur yfir. Miðað við stöðu málsins má ljóst vera að ekki verður undan þeirri ákvörðun vikist, enda brýnir almanna- og öryggishagsmunir í húfi.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að hér er auðvitað um neyðarúrræði að ræða. Það er ekki að ósk neins og það er sannarlega ekki að ósk þeirrar sem hér stendur eða ríkisstjórnarinnar að gripið sé til slíkrar lagasetningar.

Í ljósi alvarleika málsins og þeirrar stöðu sem nú er uppi mánuði eftir að verkfallsaðgerðir hófust var það hins vegar niðurstaða ríkisstjórnarinnar að ekki væri annar kostur í boði. En á sama tíma var sú ákvörðun tekin með þeim hætti að ekki var farin sú leið sem oft hefur verið farin hér á hinu háa Alþingi, þ.e. að setja málið í gerðardóm, heldur er hér farin mildari leið og deiluaðilum gefinn frestur fram í miðjan september til að ná sátt og komast að niðurstöðu. Þess vegna fela lögin í sér tímabundnar aðgerðir.

Virðulegur forseti. Ég þarf svo sem ekki að fara yfir það hér í löngu máli en sérstaða Vestmannaeyja í samgöngumálum er augljós, hún er ótvíræð, enda tengir Herjólfur saman almenningssamgöngukerfi lands og Eyja, ljóst er að áhrif verkfallsins hafa verið með margvíslegum hætti og haft mikil áhrif á íbúa og atvinnulíf í Vestmannaeyjum. Til þess að þingheimur átti sig á alvarleika málsins, sem ég geri reyndar ráð fyrir að hann geri, er rétt að benda á að undir eðlilegum kringumstæðum siglir Herjólfur þrjár til fimm ferðir alla daga vikunnar og getur þannig flutt um 1.800 bíla og 12 þús. farþega allt eftir því hvort siglt er til Landeyjahafnar eða Þorlákshafnar. Á meðan verkfallsaðgerðin hefur staðið hafa hins vegar eingöngu verið farnar fjórar ferðir á viku að meðaltali, því hefur flutningsgetan aðeins verið 240 bílar á viku og um 1.600 farþegar.

Það er mikilvægt fyrir okkur sem búum hér uppi á landi að setja þetta í samhengi við þau áhrif sem slík staða mundi hafa á samfélagið hér. Allir geta ímyndað sér hvaða áhrif þessi staða, nú í fjórar vikur, hefur haft á íbúa, atvinnulíf og þá sem þurfa að fara til og frá Vestmannaeyjum. Það má einnig nefna að nær allur vöruflutningur á milli lands og Eyja fer fram með Herjólfi, hvort sem um er að ræða nauðsynjavörur, sjávarafurðir eða annað sem flutt er með skipinu. Það þarf þess vegna ekki að ítreka að verkfallið hefur haft neikvæð og erfið áhrif á alla starfsemi í Vestmannaeyjum.

Floti Eyjamanna er í auknum mæli byrjaður að landa ferskfiski í Þorlákshöfn vegna verkfallsins þar sem ein ferð Herjólfs á dag er ekki nóg til að geta skilað fiski nógu fljótt af sér. Það leiðir til lægra verðs fyrir afurðirnar sem er tjón sem hleypur að öllu óbreyttu á tugum milljóna. Auk þess kunna störf að glatast í Vestmannaeyjum í framhaldinu.

Þá liggur ferðaþjónusta að miklu leyti niðri, auk þess sem byggingaframkvæmdir liggja að hluta til niðri vegna skorts á vörum o.s.frv.

Þá er einnig ljóst að verkfallið hefur haft bein áhrif á íbúa sem reiða sig á samgöngur skipsins til þess að sækja nauðsynlega þjónustu upp á land. Dæmi er um að íbúar sem eiga erindi upp á land þurfi til þess nokkra daga, sem felur að sjálfsögðu í sér mjög mikinn aukakostnað, vinnutap og fleira og af því hefur þegar hlotist mikið tjón.

Ákall íbúa Vestmannaeyja til stjórnvalda verður því hærra með hverjum deginum sem líður. Bæjarráð Vestmannaeyja hefur ítrekað gert bókanir vegna málsins sem bæjarstjórn og fulltrúar allra flokka þar hafa samþykkt einróma þar sem Alþingi er hvatt til aðkomu að deilu sem því miður sér ekki fyrir endann á.

Virðulegi forseti. Því miður er forsagan sú að Alþingi hefur áður þurft að grípa inn í kjaradeilur útgerða og sjómanna, t.d. árin 1993, 1994, 1998 og 2001. Árið 1993 samþykkti Alþingi lög sem bönnuðu verkföll og verkbönn á Herjólfi. Í þeim lögum var lagt til að ef ekki næðist samkomulag milli aðila skyldi málið sett í gerðardóm og það fór þá leið. Sem fyrr segir stendur ekki til að ganga þá leið í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Árin 1994 og 1998 samþykkti Alþingi einnig lög sem fólu í sér bann á verkfall sjómanna og árið 2001 samþykkti Alþingi jafnframt lög sem komu í veg fyrir vinnustöðvun sjómanna. Síðasta dæmið um inngrip Alþingis vegna verkfalls er verkfall flugvirkja árið 2010 þar sem þingheimur þurfti líkt og nú að taka erfiða og stóra ákvörðun.

Það er sameiginlegt öllum fyrri inngripum Alþingis í kjaradeilur að forða hefur þurft efnahagslegu tjóni eða koma í veg fyrir að lögbundnum verkefnum hins opinbera væri stefnt í hættu. En það er sannarlega aldrei auðveld ákvörðun og sannarlega aldrei ákvörðun sem tekin er nema að vel ígrunduðu máli og það hefur ríkisstjórnin gert í þessu tilviki.

Í þessari deilu er sem fyrr segir um að ræða kjaramál færri en tíu undirmanna á Herjólfi, sem stefnir efnahagslegri velmegun og stöðugleika Vestmannaeyja og allra íbúa þar í óefni. Almenningssamgöngur milli lands og Eyja eru í uppnámi og með aðgerðunum hefur tenging Vestmannaeyja við þjóðveginn verið klippt í sundur. Það er því ljóst að ekkert samfélag getur búið við slíka stöðu til lengri tíma. Almanna- og öryggishagsmunir eru einfaldlega of miklir í þessu máli.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið tilefni þessa frumvarps. Ég ítreka þakkir til Alþingis fyrir að taka málið svo hratt og örugglega á dagskrá og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.