143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[17:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan og ítreka það einnig við hv. þingmann að það er ekki létt fyrir neinn að flytja slíkt frumvarp. Ríkisstjórnin hefur margsinnis farið yfir málið á fundum sínum. Ég veit að hv. þm. Helgi Hjörvar hefur sjálfur samþykkt slíkt frumvarp árið 2010 og hann veit hvaða yfirferðar það krefst. Hann veit einnig, held ég líka, að það er mat okkar að frumvarpið standist stjórnarskrá.

En hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi um hver skaðinn sé af verkfallinu þá vísaði ég til ákveðinna þátta er tengjast atvinnulífi Vestmannaeyja. Ég vísaði líka til þess hversu mikinn kostnað hinn almenni Vestmannaeyingur hefur borið af málinu. Ég vísaði til þess að menn þurfa að fara um langan veg og oft fljúga frekar en að fara með Herjólfi, það felur í sér mikinn kostnað. Ég hvet hv. þingmann að kynna sér bókanir frá bæjarstjórninni, ég efast svo sem ekki um að hann hafi gert það, og kynna sér umræðuna sem verið hefur í Vestmannaeyjum. Ég held að enginn dragi í efa þau rök þeirra sem þar búa að þetta hafi haft í för með sér kostnað og skaða fyrir samfélagið.

Af því að spurt er að því hvað beri á milli deiluaðila er talið að það sé miklu meira en svo að það verði brúað í þessum viðræðum núna. Talið er að það sé í kringum 20%, allt upp í 40% sem skilur á milli og að of mikið skilji á milli aðila til þess að hægt sé að fara í þetta verkefni.

Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það, virðulegur forseti, hvort kröfurnar séu of miklar eða of litlar. Það sem ég stend frammi fyrir er að tryggja samgöngur til Eyja, tryggja öryggi fyrir almenning sem þar býr, það er verkefnið. En ég ítreka það sem ég sagði áður: Það er ekki létt verk og ekkert sérstakt fagnaðarefni fyrir neinn að þurfa að grípa til lagasetningar, en eftir mjög mikla yfirlegu er það mat allra sem að málinu koma að þetta sé eina færa leiðin.