143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[17:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vandræði Vestmannaeyinga og óhagræði og tjón út af þessu ástandi eru vel kunn, enda hafa þau verið rækilega rædd hér í þingsölum aftur og aftur. Það breytir auðvitað ekki hinu að það verður alltaf að gera tilteknar kröfur til þess að grípa inn í stjórnarskrárvarin réttindi með íhlutun og lagasetningu. Í stjórnarskrá okkar er í 74. gr. kveðið mjög skýrt á um að réttur manna til að stofna félög í lögmætum tilgangi, þar á meðal sérstaklega upptalin stjórnmálafélög og stéttarfélög, nýtur verndar stjórnarskrárinnar og þarf engin leyfi til þess. Í 75. gr. er hnykkt á því með því að segja að í lögum skuli síðan kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Það er erfitt að lesa þessi tvö ákvæði stjórnarskrárinnar saman öðruvísi en þannig að þar með njóti lögmætar aðgerðir stéttarfélaga líka stjórnarskrárverndar, enda ber að skipa réttindum í kjaramálum með lögum.

Nú er engin deila um að þessar aðgerðir eru lögmætar, ég hef engan heyrt reyna að halda neinu öðru fram og reyndar eru aðgerðirnar ekki enn komnar á það stig að vera allsherjarverkfall heldur yfirvinnu- og helgarvinnubann og núna síðan fyrir tíu dögum föstudagsvinnubann. Þess vegna verð ég að segja, virðulegur forseti, að það vekur undrun mína hversu rýr í roðinu greinargerð frumvarpsins er til þess að reyna að rökstyðja og sannfæra okkur þingmenn og aðra um að forsendur íhlutunar séu uppfylltar við þessar aðstæður nú. Það vill svo til að hér er um kjaradeilu á Herjólfi að ræða. Síðast þegar Alþingi beitti sér í slíku tilviki árið 1993 endaði það með því að íslenska ríkið fékk tiltal frá Alþjóðavinnumálastofnuninni. Ég hefði því átt von á rækilegri greinargerð, meiri lögfræðilegri undirbyggingu, til þess að þetta bæri þann svip að menn hefðu sjálfir alveg fulla trú á því að þetta væri í lagi (Forseti hringir.) gagnvart stjórnarskránni.