143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[17:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að draga í efa að hv. þingmanni þyki þessi skref erfið og skil það vel. Ég get líka ímyndað mér að þessi skref hafi verið erfið fyrir Vinstri græna og Samfylkinguna á sínum tíma þegar þau voru tekin 2010, þannig að þetta hefur þurft að gerast. Við erum öll jafn sammála um það alveg sama hvar við stöndum í flokki að þessi réttur er mjög mikils virði og ekkert okkar vill skerða hann. En það hafa fleiri en við þurft að stíga þau skref og rökin sem voru fyrir því þá eru þau sömu og núna.

Svo segir hv. þingmaður og nefnir að greinargerðin sé ekki nógu ítarleg og hún sé eitthvað rýr, ég ætla ekki heldur að fara í eitthvert orðaskak við hann um það. Það er alveg rétt að Alþjóðavinnumálastofnunin var ekki alls kostar sátt við lagasetningu hjá okkur og gerði athugasemdir við hana. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að þetta er ekki sams konar lagasetning, m.a. vegna þess að við viljum taka mið af þeim athugasemdum sem þá bárust frá Alþjóðavinnumálastofnuninni. Þess vegna er málið ekki sett í gerðardóm núna. Ég fór rækilega yfir það í ræðu minni hvers vegna við gerðum það þannig. Það er mildari leið sem við teljum vera farsælli, þannig að það skiptir máli.

Hér er rætt um greinargerðina og að hún sé ekki nægilega ítarleg og að ekki sé búið að eyrnamerkja tölurnar nógu vel eða nefna nákvæmlega upphæðir um hvað þetta verkfall hafi kostað samfélagið, það er nokkuð sem menn meta á síðari stigum. Ég veit ekki hversu margir þingmenn hafa gert það í aðdraganda málsins. Ég hef lesið hin frumvörpin sem flutt hafa verið hér og lagasetningarnar og greinargerðirnar, þetta er algjörlega í anda þeirra allra og menn hafa ekki sett neina sérstaka verðmiða á svona aðgerðir og metið þær í krónum og aurum. Þær lúta líka að ákveðinni stöðu sem er í samfélaginu og því að almenningi sem þarna býr líði eins og hann geti treyst á samgöngur og búið við öryggi. Það verður ekki metið til fjár.