143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[17:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja um þetta mál að vegna lokaummæla hæstv. ráðherra í ræðu sinni áðan og í andsvörum hlýtur umræðan í þinginu auðvitað að snúast um hvort færð eru fram í þessu tiltekna tilviki efnisleg rök sem réttlæta inngrip í stjórnarskrárvernduð réttindi, alveg eins og í öllum öðrum slíkum frumvörpum þegar stjórnvöld kjósa að beita heimildum sem þau kunna að hafa til þess að skerða stjórnarskrárbundin réttindi. Það snýst ekki um lengd greinargerðar heldur um hin efnislegu rök sem færð eru fram og það hagsmunamat sem að baki liggur.

Við vitum að verkfallið eða yfirvinnubannið sem staðið hefur á Herjólfi býsna lengi hefur haft áhrif á mannlíf og atvinnulíf í Vestmannaeyjum. Ég held að það sé engum í hug í þessum sal að gera lítið úr þeim óþægindum og erfiðleikum sem það hefur valdið; kostnaði fólks við að komast til og frá Eyjum, erfiðleikum við atvinnulíf í Eyjum, jafnvel þannig að atvinnutækifæri eru byrjuð að glatast vegna þess að fiskiskipaflotinn leggur upp annars staðar en í Eyjum vegna lélegra samgangna, og ærnum áhrifum á allt félagslíf og mannlíf í Eyjum sem óþarfi er að fjölyrða um hér og við höfum margoft heyrt fjallað um í athugasemdum frá bæjaryfirvöldum og íbúum.

Ég get sagt fyrir mig að ég hef verið í miklu sambandi við íbúa í Vestmannaeyjum á undanförnum vikum og rætt þessi mál í þaula. Ekkert er okkur fjær en að efast á einhvern hátt um hversu erfitt þetta ástand er fyrir Vestmannaeyjar. En þegar kemur að löggjöf af þessum toga er það þannig að frumkvæðið að lagasetningu sem gengur gegn stórnarskrárvörðum réttindum hlýtur að byggja á mati á því að almannahagsmunir séu í hættu. Þá er ekki fullnægjandi, eins og hæstv. ráðherra gerði áðan í ræðu, að vísa einvörðungu til þess hvað íbúum Vestmannaeyja finnst. Við vitum að þetta leggst þungt á íbúa Vestmannaeyja alveg eins og allsherjarverkfall á Íslandi leggst þungt á alla íbúa Íslands. Það er eðli verkfalla. Það að þeir sem verkfall bitnar helst á telji það bitna harkalega á sér geta ekki talist sérstök rök þegar fjallað er um verkföll í einstöku tilviki.

Núna eru á þriðja tug þúsunda framhaldsnema heima með framtíð sína í uppnámi og fordæmi af framhaldsskólakennaraverkföllum segja okkur að brottfall aukist mjög, samfélagslegt tjón verði gríðarlegt, þunglyndi aukist meðal þeirra nemenda sem heima sitja og jafnvel þannig að um áratugi glími ungmenni við afleiðingar slíkra verkfalla, bara svo við tökum eitt nærtækt dæmi um tjón af verkföllum á samfélag. En samningsrétturinn er varinn samkvæmt 74. gr. stjórnarskrár og hann er varinn samkvæmt 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópuráðsins og rétturinn til þess að knýja fram kröfur sínar með verkföllum er með sama hætti varinn af stjórnarskrá og þess vegna verður að gera ríkar kröfur.

Í þessu tilviki varðandi framgöngu Herjólfs er ríkið vissulega ekki samningsaðili en það er verið að sinna verkefnum sem eru samningsbundin verkefni sem ríkið greiðir fyrir með samningi við Eimskip, og það er auðvitað þannig að ríkið hefur þar af leiðandi ýmsa aðkomu að því að greiða fyrir samningum í deilunni. Hæstv. ráðherra sagði áðan að kannað hefði verið á vettvangi Vegagerðarinnar hvort hún gæti komið að efnislegri úrlausn deilunnar en svo hefði ekki verið. Ég hlýt að spyrja: Hvert var hið efnislega mat Vegagerðarinnar að því leyti, og hvers vegna er endilega rétt að una því? Hvers vegna tekur ríkisvaldið afstöðu í þessu tilviki og stígur inn í kjaradeilu og nýtir lagasetningarvald þegar ríkið gæti haft afskipti af deilunni sem sá aðili sem fjármagnar samninginn milli Eimskipafélagsins og Vegagerðarinnar? Eru efnisrök fyrir því að bæta þar í, eru efnisrök fyrir því að bæta með einhverjum hætti sérstaklega við fjárveitingar til að brúa bil í þessari kjaradeilu? Ég tel ekki að fullnægjandi svör hafi fengist við því stóra álitamáli.

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt og það þýðir ekki í því efni að vitna hipsum haps í ýmis fordæmi hér og hvar, heldur er óhjákvæmilegt í hverju einasta tilviki þar sem lagt er upp með löggjöf af þessum toga að rökstyðja hana út frá efnislegum viðmiðum í því tiltekna tilviki og það verður líka að hafa hliðsjón af réttarþróuninni. Við höfum hæstaréttardóm frá 2002 þar sem ítarlega er endurmetið hvort ríkið hafi haft heimildir til inngripa í víðtækt sjómannaverkfall sem lamaði allan fiskiskipaflotann í næstum því tvo mánuði. Og það var ekki einboðið. Hæstiréttur rakti í smáatriðum þau efnislegu rök sem þá voru færð fram fyrir lagasetningu, komst að þeirri niðurstöðu að hún héldi í því tilviki. Í kjölfarið hefur íslenska ríkið verið kært fyrir Alþjóðavinnumálastofnuninni og við höfum fengið á okkur átölur fyrir inngrip í kjaradeilur á þeim vettvangi. Það er þess vegna eðlilegt að við gerum ríkari og ríkari kröfur til inngripa að því leyti í ljósi réttarþróunarinnar.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra rakti áðan að þetta væri mildara inngrip en inngripið með lagasetningunni í sjómannaverkfallinu árið 2002 vegna þess að ekki væri kveðið á um gerðardóm. Ég verð að segja að þau rök þykja mér ekki sérstaklega sannfærandi, sérstaklega þegar horft er á röksemdir Hæstaréttar í dómnum frá 2002 þar sem Hæstiréttur beinlínis segir: Ef tekinn er samningsrétturinn af manni verður að gefa honum tækifæri til að fá úrlausn um kröfur sínar. Hæstiréttur taldi 2002 jákvætt að það væri þá kveðið á um gerðardóm, því að annars er aðeins verið að taka samningsréttinn af viðkomandi fólki fyrir fullt og fast. Mér þykir mjög sérkennilegt ákvæði sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi að verkfallinu verði einfaldlega frestað fram á haust án nokkurrar úrlausnar. Það mun þá ekkert gerast í kjarasamningum fram á haust vegna þess að þvingunarafl launþeganna hefur verið tekið burt, réttur þeirra til að knýja á um réttmæti krafna sinna hefur verið tekinn burtu og þeir eru þá ofurseldir valdi atvinnurekandans fram að þeim tíma.

Hæstv. ráðherra segir að það standi ekki til að koma inn með neina nýja fjármuni á vettvangi samningssambands Eimskipa og Vegagerðarinnar. Þá sé ég ekki betur en hér sé verið að loka öllum dyrum fyrir þetta launafólk og það fái ekki neina efnislega úrlausn um kröfur sínar.

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að fara mjög vandlega yfir þetta mál í nefnd og ég vil segja það, eins og ég hef margoft sagt, að við í Samfylkingunni leggjum þunga áherslu á varðstöðu um samningsrétt launamanna og við teljum að mjög þung rök þurfi til að grípa inn í hann með lagasetningu og að það verði þá að liggja fyrir skýrt mat á almannahagsmunum ef svo á að vera hægt að gera. Við munum ekki koma í veg fyrir samþykkt þessa frumvarps eða reyna að beita okkar afli til þess, en það þarf að fara efnislega yfir þetta mál á vandaðan hátt í nefnd því að þingmenn allir bera ábyrgð á því með atkvæði sínu að ganga úr skugga um að áskilnaði stjórnarskrárinnar sé fullnægt. Það liggur fyrir mikill leiðarvísir í nýlegum dómum og dómafordæmum Hæstaréttar og auðvitað því sem frá Alþjóðavinnumálastofnuninni hefur komið sem er nauðsynlegt fyrir okkur að fara vandlega yfir.

Að síðustu vil ég slá varnagla vegna aðstæðnanna. Ríkisstjórnin stígur nú inn í kjaradeilu þar sem hún er óbeinn aðili að samningi, þ.e. hún stendur undir kostnaðinum af þeirri þjónustu sem hér um ræðir og hún stígur inn í deiluna og í reynd ónýtir samningsrétt viðsemjandans án þess að gefa honum nokkra úrlausn í gerðardómi eða með öðrum hætti gefa honum færi á að fá kröfur sínar viðurkenndar. Á sama tíma liggur fyrir að 1.800 framhaldsskólakennarar eru í verkfalli og ríkið er aðili að þeirri deilu. Hvaða fordæmi er löggjafinn að veita ef við samþykkjum þetta frumvarp með ekki ríkari greiningu á þeim almannahagsmunum sem að baki liggja? Erum við þá að gera það léttan leik í næstu viku fyrir hæstv. menntamálaráðherra að koma fram með frumvarp sem bannar verkfall framhaldsskólakennara með vísan til þessa fordæmis sem hér hefur verið skapað, enda er auðvelt að rökstyðja víðtæka almannahagsmuni af því að skólastarf í framhaldsskólum haldi áfram og endir verði bundinn á það verkfall?

Á hvaða vegferð er ríkisstjórnin í samskiptum á vinnumarkaði? Og eins og þetta sé ekki nóg bárust af því fréttir í gær að starfsmenn Isavia hefðu boðað til verkfalls sem á að hefjast fljótlega. Hvaða fordæmi er ríkisstjórnin að skapa sér með þessari löggjöf hér þegar ekki fleiri starfsmenn heyra þarna undir, að grípa inn í kjaradeilur að vild þar sem hún er sjálf annar samningsaðilinn?

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mál lengra. Það er mikilvægt að okkur gefist tími til að fara vandlega yfir það og við munum þurfa að nýta tækifæri í nefndarstarfi til að fá gesti, fá sérfræðinga á fund nefndarinnar til að tryggja að vel sé leitað og vel sé kannaður hinn réttarlegi grundvöllur fyrir þessu inngripi og mikilvægt að hin þinglega vinna málsins verði vönduð. (Gripið fram í.)