143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[18:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að það sé verulega pirrandi fyrir Vestmannaeyinga að um sé að ræða sex starfsmenn á móti 4.300 manna samfélagi, en sé þetta þvílíkt neyðarástand ættum við frekar að spyrja að því hvort starfsmennirnir sex eigi að vera kostaðir af einkafyrirtæki til að byrja með. Ef um slíkt neyðarástand er að ræða, gæti ríkisstjórnin ekki gert tímabundið samkomulag við samtök atvinnulífsins eða Eimskip um að kosta kjarabætur tímabundið þar til fundin er lausn á þeim vanda að Vestmannaeyjar séu háðar einkafyrirtæki, til þess að ekki ríki þar neyðarástand? Sé þetta neyðarástand hlýtur það að vera réttmæt lausn. Það hlýtur að vera lögmæt leið ef um þvílíkt neyðarástand er að ræða að það réttlæti veikingu félagafrelsis, ein af skilgreindum mannréttindum samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu, 11. gr. nánar tiltekið.

Þetta eru ekki bara sex starfsmenn á móti 4.300 manna samfélagi heldur líka félagsfrelsið á móti efnahagslegri velsæld. Ef mannréttindi okkar eru háð því að efnahagsleg velsæld og þægindi séu til staðar svo aldrei verði mánaðarhallæri skulum við sleppa þessu mannréttindabrölti til að byrja með, það gæti aldeilis sparað pening. Er það ekki?

Víkingur siglir enn til Landeyja samkvæmt mínum heimildum og getur flutt tíu farþega. Flug gengur enn þá milli meginlands og Eyja. Til þess að brjóta á skilgreindum mannréttindum eins og félagafrelsi þarf ríka almannahagsmuni, svo sem stríð, hungursneyð, náttúruhamfarir, kannski yfirvofandi efnahagshrun á borð við það sem varð á Íslandi 2008. Hér er talað um tjón og óþægindi og með fullkominni virðingu fyrir öllum sem nú þjást vegna þessa ástands, ég geri ekki lítið úr því, er það einfaldlega ekki nógu mikið tilefni til þess að brjóta mannréttindi. Mannréttindi eru einfaldlega mikilvægari en efnahagsleg velsæld og þægindi.

Ég er fullkomlega ósannfærður um réttmæti þessa frumvarps. Alveg sama hversu margir eiga í hlut í deilunni eru mannréttindi ekki einungis fyrir þessa sex starfsmenn og ekki einungis fyrir hina 4.300 íbúa Vestmannaeyja — og enginn hefur einu sinni sagt að hann upplifi brot á mannréttindum eða nokkuð í námunda við það — heldur fyrir alla þjóðina og reyndar í víðara samhengi, allt mannkyn. Að veikja félagafrelsið vegna efnahagstjóns og óþæginda er mjög vondur „díll“.

Að lokum langar mig að lesa upp úr lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, með leyfi forseta, 11. gr., 2. tölul. eða 2. mgr.:

„Eigi skal réttur þessi háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi vera því til fyrirstöðu að löglegar takmarkanir séu settar við því að liðsmenn hers og lögreglu eða stjórnarstarfsmenn beiti þessum rétti.“

Það er einfaldlega ekki nógu mikið að til þess að réttlæta veikingu á félagafrelsinu. Mánaðarhallæri er hreinlega ekki nóg til þess að brjóta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Við höfum nú þegar of oft gengið of langt í því að veikja réttindi. Við eigum ekki að ganga lengra nema algjörlega skýrt sé að það sé algjörlega nauðsynlegt. Hvorugt er tilfellið nú.