143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[18:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við þingmenn erum eiðsvarnir til þess að verja stjórnarskrána og fara eftir henni. Í henni segir í 75. gr., sem skiptir máli í þessu sambandi, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Í þessa grein hefur verið vitnað áður. Gleymum því ekki að það að veita þá lagaheimild að banna öðrum að taka upp vinnu þegar ákveðinn hópur fer í verkfall þá er líka verið að banna, þá er ekki lengur öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Höldum því til haga.

Öll þessi umræða um ofbeldi er rétt, þetta er ofbeldi sem á sér stað hérna. Þetta er lögbundið ofbeldi í ákveðnum tilgangi. Tilgangurinn getur verið góður. Hann getur verið slæmur, þá þarf hver að meta það fyrir sig. Verkfallsrétturinn er réttur sem veittur hefur verið fólki sem segir að ríkið muni með ofbeldi tryggja að aðrir taki ekki upp vinnu þess þegar það fer í verkfall. Þetta er gert til þess að tryggja samningsstöðu launþega. Ókei, gott og vel. Þannig er það í dag.

Þegar fólk hefur farið af stað á grundvelli lögvarins réttar síns þurfum við að hugsa okkur mjög vel um áður en við grípum inn í með lögum. Það þarf að vera vel réttlætanlegt að gera það. Þá er spurningin: Hvar er réttlætingin fyrir því að brjóta þetta verkfall á bak aftur eða verkföll yfir höfuð? Réttlætingin hefur alltaf verið sú að ríkir almannahagsmunir séu í húfi.

Í greinargerð þessa frumvarps sé ég hvergi minnst á ríka almannahagsmuni. Þá komum við aftur að stjórnarskránni sem við þingmenn höfum svarið eið að. Þegar talað er um 75. gr. er sagt að hana skuli túlka eins og mannréttindasáttmála Evrópu. Þar skuli ekki vera þrengri túlkun. Þar kemur fram að ganga megi á þennan rétt vegna þjóðaröryggis og almannaheilla.

Í þessu tilfelli er staðan óþolandi. Hér eru sex aðilar sem geta stöðvað — nei, við skulum ekki segja stöðvað, það er ekki rétt, þeir geta heft mjög samgöngur og valdið virkilegum efnahagslegum skaða og óþægindum. Fyrir hverja? 4.300 manna byggðarlag? En þetta er réttur sem þeim hefur verið veittur. Ef menn eru ekki ánægðir með slíkt fyrirkomulag geta menn gert ýmsa hluti. Menn geta endurskoðað hvort þessi heimild eigi að vera til staðar. Ég held að almenningur sé ekki hrifinn af því. Ég held að almenningur á Íslandi vilji hafa þessa heimild um að tryggt sé með ofbeldi, með ríkisvaldi, að aðrir taki ekki upp vinnu manna í löglega boðuðu verkfalli. En ef launþegar í landinu vilja ekki hafa þessa vernd, þessa tryggingu, þessa styrkingu á samkeppnisstöðu sinni, þá er hægt að breyta því. En ég trúi því að launþegar vilji halda þessari tryggingu, þessari styrkingu á samningsstöðu sinni og hún mun örugglega halda.

Þarna er verið að ganga gegn þeirri tryggingu sem fólk hefur í þessum efnum. Þá þurfum við að hugsa okkur alvarlega um.

Málið mun nú fara til umhverfis- og samgöngunefndar, þar sit ég. Ég mun fylgja því eftir og ég mun ekki geta greitt atkvæði með svona inngripi nema ég hafi séð það réttlætt að svona lagað sé gert á grundvelli almannahagsmuna og þjóðaröryggis, sem er sá grundvöllur sem þarf að vera til staðar til þess að við setjum á svona lög, að ganga á þennan rétt fólks sem það nýtir sér.