143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE. Forsaga málsins er sú að verkfallsaðgerðir og yfirvinnubann hafa nú staðið yfir í nokkurn tíma af hálfu Sjómannafélags Íslands, þeirra starfsmanna á Herjólfi sem eru aðilar að Sjómannafélagi Íslands.

Markmið þessa frumvarps er að fresta verkfallsaðgerðum og leggja bann við þeim til 16. september 2014. Jafnframt eru aðrar aðgerðir sem jafna má til verkfalla og er ætlað að knýja fram breytta skipan kjaramála milli aðila óheimilar. Meiri hlutinn vekur þó athygli á því að nýr kjarasamningur sem gerður er með samkomulagi milli aðila gæti breytt þessum tímamörkum, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Meiri hluti nefndarinnar ítrekar að með frumvarpinu er ekki verið að afnema samningsrétt sjómanna heldur er verið að fresta verkfallsaðgerðum og í raun framlengja síðastgildandi kjarasamninga til og með 15. september og gefa aðilum þar af leiðandi lengri tíma til að freista þess að ná saman.

Auðvitað er það grundvallarregla sem við erum öll sammála um hér að stefna beri að því að aðilar að kjarasamningnum nái að ljúka deilum sínum með samningum en það getur komið til þess þegar brýna nauðsyn ber til að íhlutun ríkisvaldsins sé réttlætanleg. Mat nefndarinnar er að svo sé í þessu tilviki.

Alþingi hefur áður þurft að grípa inn í kjaradeilur og á undanförnum árum hafa nokkur slík mál farið í gegnum þingið en þó var meira um það fyrir síðustu aldamót.

Það er alveg ljóst að það er sameiginlegt með þessum inngripum Alþingis í kjaradeilur að þurft hefur í þeim tilvikum að forða efnahagslegu tjóni eða um var að ræða tilvik þegar lögbundnum verkefnum hins opinbera var stefnt í hættu. Mat nefndarinnar er að hvort tveggja eigi við í þessu tilviki.

Í þessari deilu er um að ræða kjaramál er varða sex stöður undirmanna á Herjólfi sem haft hefur gríðarleg áhrif á samgöngur til Vestmannaeyja og þar af leiðandi hefur það haft gríðarleg áhrif á samfélagið allt í Vestmannaeyjum, efnahag er þar að lýtur og eins stöðu fjölskyldna og íbúa í Eyjum. Ljóst er að vöruflutningar fara að mestu leyti sjóleiðina milli lands og Eyja og hefur yfirvinnubannið og verkfallið haft neikvæð áhrif á atvinnustarfsemi í Eyjum, að ógleymdum þeim áhrifum sem það hefur á íbúana sem þurfa að sækja þjónustu upp á land og hafa þurft að taka frí í lengri tíma frá vinnu til að ná að sinna slíkum erindum.

Nefndin fékk gesti á sinn fund. Ég leyfi mér að segja að nefndin hafi náð að hafa ansi yfirgripsmiklar gestakomur miðað við þann tíma sem henni gafst til að fjalla um málið. Við fengum gesti frá innanríkisráðuneytinu, Sjómannafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, við fengum einnig Björgu Thorarensen og Ástráð Haraldsson sem og Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ og ríkissáttasemjara. Mig langar að þakka fyrir gott samstarf í nefndinni en svo virðist sem engin lausn finnist á vinnudeilunni í bráð. Kjaradeilu Sjómannafélags Íslands við Samtök atvinnulífsins, sem fara með samningsumboðið fyrir hönd Eimskips, var vísað til ríkissáttasemjara í janúar síðastliðnum og ekkert hefur þokast í viðræðunum og engir fundir verið boðaðir.

Þessi tilfinning okkar sem höfum verið að skoða þessi mál að undanförnu var staðfest enn frekar í störfum nefndarinnar í kvöld en þar kom fram að allar sáttatilraunir hafa mistekst og lausn er ekki í sjónmáli. Þess vegna leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt.

Mig langar að hvetja þá aðila er standa í kjaradeilunni til að nýta tímann vel. Verði þetta frumvarp samþykkt gefst lengri tími til þess að reyna að ná saman. Ég hvet aðila til þess að nýta tímann vel.

Ég legg til að frumvarpið verði samþykkt. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Haraldur Einarsson, Brynjar Níelsson og Vilhjálmur Árnason.