143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:23]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við greiddum atkvæði með því að málið færi hér á dagskrá vegna þess að við töldum mikilvægt að það fengi efnislega umfjöllun sem fyrst. Við gerðum aldrei kröfu um að það yrði afgreitt fljótt og hratt eins og hv. þingmaður veit vegna þess að ég stakk upp á því í nefndinni að menn biðu til morguns, það lægi ekkert á því að Herjólfur mun ekki sigla neina ferð í kvöld. Það liggur fyrir.

Ég bið hv. þingmann að fara rétt með og koma ekki með ósannindi og undarlega útúrsnúninga í máli sínu. Hann gagnrýnir að ég hafi talað um óþægindi sem þetta hafi valdið í Vestmannaeyjum. Það er akkúrat lýsingin sem bæjarráð Vestmannaeyja notar í tilvitnuðum ummælum í greinargerð með frumvarpinu, það lýsir þungum áhyggjum af þjónustuskerðingu, að skaðinn sé orðinn verulegur og óþægindin mikil. Þetta hefur auðvitað haft gríðarlega mikil óþægindi í för með sér. Það gerir enginn lítið úr þeim vanda sem þetta hefur skapað fyrir Vestmannaeyjar en það eru bara fjölmörg dæmi úr íslenskri verkalýðssögu um óþægindi af völdum verkfalla sem engu að síður hafa verið réttmæt.

Þar dugar að nefna mjólkurverkfallið mikla 1955 sem skilaði íslensku launafólki ótrúlegum kjarabótum, grundvallarbreytingum á réttarstöðu, en það hafði auðvitað í för með sér gríðarleg óþægindi.

Ég segi fyrir mig og minn flokk að við vildum ekki vera án afleiðinga mjólkurverkfallsins frá 1955 þó að það hafi haft gríðarleg óþægindi í för með sér og sé umdeilt í íslenskri sögu. En það er bara þannig með verkföll að þau hafa almennt í för með sér mikil og víðtæk óþægindi og það er ekki réttlætingarforsenda fyrir því að grípa inn í þau. Réttlætingarforsendurnar hefur Hæstiréttur skilgreint í dómi frá 2002 og ríkisstjórnin kemst hvergi nærri því og meiri hluti nefndarinnar enn síður að feta í þau fótspor og eftir þeim viðmiðum sem Hæstiréttur setti í dómnum 2002.