143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:27]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi tilvísunina til lagasetningarinnar 2010. Hún var á margan hátt annars eðlis en sú sem hér um ræðir og hún laut að annars konar hagsmunum. Það er líka athyglisvert að horfa til þess að þá náðist býsna víðtækur stuðningur við lagasetningu enda voru í húfi flugsamgöngur við önnur lönd. Lögin voru sett beint ofan í Eyjafjallajökulsgosið og því til viðbótar voru lögin eins takmörkuð og mögulegt var því að þeim var einungis beint að því félagi sem þar átti hlut að máli.

Þetta er alltaf matsatriði og ég ítreka að ég útiloka ekki að löggjafinn geti lent í þeirri aðstöðu að setja lög sem grípa inn í kjaradeilur en ég er sammála því og það er mat mitt að í því tilviki hafi þau skilyrði verið betur uppfyllt en þau eru nú, ég tel að það sé óumdeilanlegt.

Hefði það verið óumdeilt að það hefði staðist fyrir dómi? Ég þori ekki að fullyrða það en það hefði verið mun betur um það búið í dómsmáli en í því máli sem hér um ræðir.

Að því er varðar samgöngur við Vestmannaeyjar þá eru þær við lýði. Þetta ástand er auðvitað mjög slæmt og það skerðir samgöngurnar. En það er ekki þannig að það séu engar samgöngur við Vestmannaeyjar og það flækir málið og gerir það erfiðara að finna rökstuðning fyrir því að uppfylla kröfuna um almannahagsmuni sem er fyrir hendi, mörkuð af Hæstarétti, mörkuð af dómafordæmi Mannréttindadómstólsins (Forseti hringir.) og byggir á stjórnarskrárvernd réttindanna.