143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hyggst ekki lengja umræðuna mjög, en finnst þó gott að fá hér tækifæri til að fara yfir þau sjónarmið sem ég tel mikilvægust í þessu máli. Þau komu fram í ræðu minni fyrr í dag, ég sagði að ég hefði áhyggjur af því að með þessari lagasetningu væri gengið of langt gagnvart samningsréttinum.

Fram kemur í nefndaráliti minni hlutans, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason fór ágætlega yfir, að orðið hefur mikil framför í mannréttindavernd á undanförnum árum og áratugum. Orðið hefur mjög mikil framþróun til að mynda með breytingum á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar 1995 þar sem innleidd voru sérstök ákvæði um vernd stéttarfélaga og stjórnmálahreyfinga. Það tengist í raun rétti þessara aðila annars vegar til að stofna stéttarfélög og hins vegar til að berjast fyrir rétti sínum. Við getum spurt okkur hvort þessi framþróun hafi haft áhrif á þá ótvíræðu þróun sem orðið hefur að verkföll eru bæði orðin sjaldgæfari en áður og að lagasetningarvopninu hefur verið beitt mun sjaldnar en áður, þar spila vafalaust margir þættir inn í. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við veltum því fyrir okkur í hvert einasta sinn sem svona spurning kemur upp og tökum til þess afstöðu, hvort við teljum að rökin sem liggja til grundvallar málum séu fullnægjandi.

Það sem mér fannst afskaplega mikilvægt og kom fram í meðförum nefndarinnar er að það verða að vera mjög ríkir almannahagsmunir til þess að réttlæta lagasetningu. Það er auðvitað álitamál hvort það að eiga vísa leið til lands séu ríkir almannahagsmunir í ljósi þess að það eru samgöngur milli lands og Eyja þó að vissulega hafi orðið veruleg skerðing þar á og hún hafi valdið Eyjamönnum verulegum erfiðleikum. Um það erum við sammála. Spurningin er hvort við teljum þá hagsmuni nægilega ríka. Mér fannst líka, eftir að hafa fjallað um málið í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, að skýra hefði mátt betur bæði í greinargerð og í framsögu þessa brýnu nauðsyn fyrir lagasetningunni, því að það er alveg ljóst, eins og fram kom hjá þeim sérfræðingum sem mættu fyrir nefndina, að verkföllum er auðvitað ætlað að hafa áhrif á almannahagsmuni. Til þess eru verkföll. Þess vegna er því vopni beitt. Þá þarf að vega og meta hversu langt er gengið.

Þess vegna er beinlínis um það rætt í þeim dómi héraðsdóms sem staðfestur var af Hæstarétti og ég gerði að umtalsefni fyrr í dag, að það þurfa að vera ríkir almannahagsmunir eða efnahagsleg vá. Þess vegna er eðlilegt að meta hvert og eitt tilfelli. Hér hefur verið gert að umræðuefni boðað verkfall flugvirkja 2010. Við getum líka rætt verkfall grunnskólakennara 2004 þegar sett voru lög, það var eftir verkfall þar sem bent var á að það væri farið að hafa veruleg áhrif á skólabörn. Ég ætla ekki að segja hvaða afstöðu ég hefði tekið í því máli, ég var ekki hér þá, en hvað varðar verkfallið 2010 þá varðaði það allar flugsamgöngur til og frá landinu.

Einnig bar á góma málefni sem ræða þarf miklu betur og lýtur almennt að því hvernig við búum að ríkissáttasemjara og úrræðum hans og hvað við ættum að ræða til framtíðar litið varðandi úrræði ríkissáttasemjara hér á landi til þess að stíga inn í svona deilur og hvort við getum gert þau betur úr garði. Fram kom að ekki er allt fullreynt í samningum. Haldnir hafa verið tíu til tólf fundir í þessari deilu, en það er mat ríkissáttasemjara að ekki sé fullreynt þótt mikið skilji í milli. Mér finnst líka skipta verulegu máli að það er líklega hægt að halda áfram að reyna. Ég segi það, ég tel að ekki sé fullreynt, það hefur komið fram.

Ég tel enn fremur að rökstuðningurinn sem fylgir þessu frumvarpi sé ekki nægur til þess að réttlæta það að hér séu nægjanlega ríkir almannahagsmunir til þess að gengið sé fram með þessum mjög svo afgerandi hætti sem fallið hefur dómur um, sem ég þarf ekki að tíunda, ég fór yfir það í ræðu minni við 1. umr. í dag. Um er að ræða dóm í sjómannaverkfallinu 2001 en sá dómur féll 2002, þá hafði verkfall staðið í meira en sex vikur og allur flotinn var í höfn, þannig að við sjáum hvert umfangið hefur verið í því dæmi.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég tel að hér sé farið nægilega vel yfir málið. Eins og ég segi, álitamálið er uppi og þetta er afstaða mín eftir umfjöllun nefndarinnar.