143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að búið er að ræða talsvert um að ASÍ hafi ekki verið boðið að koma að málinu 2010 verð ég nú að taka það fram að ég óskaði eftir því að ASÍ kæmi á fund. Meiri hluti nefndarinnar greiddi raunar atkvæði gegn því í byrjun en skipti nú sem betur fer um skoðun á því máli, þannig að það sé nú bara sagt í þessari pontu úr því að við erum að ræða hverjum var boðið á fund og hverjum ekki, sem ég gerði ekki að umtalsefni í ræðu minni, nota bene.

Hvað varðar viðhorf hans eru það að sjálfsögðu eðlileg viðhorf þeirra sem leiða verkalýðshreyfinguna að aldrei eigi að koma til lagasetningar. Það finnst mér mjög skiljanlegt viðhorf hjá leiðtogum verkalýðshreyfingarinnar, að sjálfsögðu. Ég horfi hins vegar á þetta út frá því að eftir að hafa kynnt mér þá umræðu og reifun sem finna má í dómnum sem ég hef margoft nefnt hér, nr. 167/2002, tel ég vissulega að það geti verið rök fyrir því að Alþingi komi að málum með lagasetningu, það kom skýrt fram í fyrri ræðu minni í dag þegar rætt var hvort þessi réttur væri heilagur eða ekki. Ég get ekki sagt að hann sé algjörlega heilagur í ljósi þess að ég tel að þau rök geti verið fyrir hendi. Ég tel hins vegar ekki að þau rök séu kynnt nægilega skýrt í þessu frumvarpi. Ég tel alla vega ekki að þau séu fyrir hendi með nægilega skýrum hætti til þess að fara í svo afgerandi aðgerð, þ.e. lagasetningu, en það þarf þó ekki alltaf að vera þannig. Það er mat mitt og þar af leiðandi er ég ekki sammála forseta ASÍ í þessu máli, sem tekur þá afstöðu sem forustumaður í verkalýðshreyfingunni.