143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil þó taka eitt fram. Það er rétt að í upphafi féllst ég ekki á að ASÍ kæmi á fundinn vegna þess að það var ekki bara óskað eftir ASÍ, óskað var eftir BSRB, BHM, Isavia, þremur starfsmannafélögum þar inni, Félagi framhaldsskólakennara, Skúla Magnússyni, Davíð Þór Björgvinssyni, réttarfarsnefnd, ríkislögmanni, Magnúsi Norðdahl og Ástráði Haraldssyni. Þetta eru töluvert margir aðilar, virðulegi forseti, sem hafa nákvæmlega enga aðkomu að þeirri deilu sem hér er undir.

Ég vil taka það fram að forseti ASÍ nefndi það sérstaklega þegar hann kom á fund nefndarinnar að hann hefði enga aðkomu að þeirri deilu sem hér er til umræðu. Ég notaði það sem dæmi um hvernig var farið með svona mál á fyrra þingi, en ég vil þó taka það fram að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vanda vinnubrögðin betur. Við eigum að vera með fullmótaðan farveg hér á Alþingi og í nefndum fyrir svona mál ef þau koma upp, þannig að allt geti legið fyrir og þokkaleg sátt ríki um það fyrir fram, að menn séu ekki að finna upp hjólið í hvert einasta skipti.

Að öðru leyti greinir okkur á um efnisatriðin, hvort þessir almannahagsmunir séu til staðar. Ég tel það einsýnt, ég tel að þeir séu mjög ríkir í þessu máli og það réttlæti því miður að við setjum lög á þetta verkfall hér á Alþingi,