143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni, sem nýtur þess jafnframt að vera lögmaður, og vona að hann sé ekki að leggja til við þingið að við brjótum gegn stjórnarskrá. Vonandi er þessi löggjöf þannig úr garði gerð að hún haldi fyrir dómstólum ef á það reynir.

Ég hef oft nýtt mér það að hv. þingmaður er sérfróður um lög og vildi þess vegna nota tækifærið og spyrja hvort hann þekki þess einhver dæmi á þessari öld að Alþingi hafi sett lög á yfirvinnubann. Sömuleiðis spyr ég hvort hv. þingmaður þekki þess einhver dæmi frá liðinni öld að Alþingi hafi sett lög á yfirvinnubann.

Ég þekki þess dæmi að algjör vinnustöðvun hafi skapað þær aðstæður að talið hafi verið nauðsynlegt að Alþingi gripi inn í með löggjöf en ég þekki ekki nægilega vel fordæmin sem um ræðir. Ég veit hins vegar að þingmaðurinn hefur skoðað þau og spyr hann þess vegna hvort þess séu dæmi, annars vegar á þessari öld og hins vegar á síðustu öld, að sett hafi verið lög á yfirvinnubann. Hvaða tilfelli eru það þá?