143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki annað en tekið eftir því að nú var ekkert talað um læknisþjónustu. Ef hv. þingmaður hefur eitthvað meira um það að segja hefði ég mjög gaman af því að heyra af því — reyndar ekki endilega gaman, en vissulega gagn.

Það er augljóst að Vestmannaeyjar eru eyja en það er ekki eins og samgöngur liggi þar niðri alfarið, þær liggja niðri á ákveðnum tímum. Það eru bátar sem fara til landsins. Samkvæmt mínum heimildum sem eru kannski rangar — þá bið ég hv. þingmann að leiðrétta mig eða hvern sem er annan — rúma þeir tugi manna og þá er hægt að flytja tugi manna frá Eyjum til meginlandsins. Sömuleiðis er flug til staðar. Við eigum þyrlur. Við eigum flugvélar.

Þá spyr ég annarrar spurningar. Veit hv. þingmaður um verkfallsbann þar sem minni almannahagsmunir hafa verið í húfi? Eru þetta ekki minnstu (Forseti hringir.) ríku almannahagsmunir sem hafa verið notaðir til þess (Forseti hringir.) að réttlæta verkfallsbann?