143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:17]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að réttur þessara örfáu manna er til staðar en það er líka réttur löggjafans að grípa inn í með löggjöf. Löggjafinn getur alltaf sett lög þegar hann metur það svo að almannahagsmunir séu í húfi. Flóknara er þetta ekki í raun.

Ég er alveg tilbúinn að taka þessa umræðu á öðrum tíma og ræða almennt um það hverjir eigi að hafa þennan rétt og hvenær megi nota hann. Má nota hann undir öllum kringumstæðum?

Hér erum við að tala um hóp fárra manna sem eru auðvitað að fara fram á miklu hærri kröfur en almennt er búið að semja um í landinu og hafa þennan rétt með þessum miklu afleiðingum. Ég er ekki viss um að það sé eðlilegt.

Það er ekki neyðarréttur. Það er búið að bjóða mönnum það sama og allir aðrir eru búnir að semja um í landinu. Menn nýta verkfallsréttinn til að knýja fram eitthvað meira. Ég (Forseti hringir.) sé það ekki.