143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum bann við verkföllum. Hér hafa verið haldnar margar ræður eins og ég sagði fyrr í kvöld og vísaði í að það er stjórnarskrárbundinn réttur manna að stofna félög og fara í verkföll. Sá réttur, verkfallsrétturinn, hefur breyst mikið. Í árdaga verkfallsbaráttunnar fóru verkamenn, láglaunastéttir, í verkfall til að bæta stöðu sína og verkfallið beindist gegn því fyrirtæki sem þeir störfuðu hjá.

Þá var spurningin um það að knýja fyrirtækið til að semja. Þeir aðilar sem voru aðilar að kjarasamningi töpuðu, báðir tveir, bæði þeir sem fóru í verkfall og sá sem verkfallið beindist að. Síðan gerist það löngu seinna að menn fara að átta sig á samfélagslegum áhrifum verkfalla og þá breyttist verkfallsrétturinn allverulega. Ég ætla að biðja hv. þingmann að skoða það að verkfallsrétturinn breyttist allverulega. Það má kannski segja að það sé kjarni vandans sem við erum að glíma við í kvöld og sem ríkisstjórnir allra flokka hafa glímt við. Það er vandinn þegar örfáir menn geta valdið þriðja aðila gífurlegu tjóni með aðgerðum sínum. Einhver þriðji aðili tapar, og tapar mikið, verður jafnvel gjaldþrota.

Það er hin nýja tegund af verkfalli. Og hverjir skyldu fá hæstu launin í þeim verkföllum? Það eru þeir sem valda mestu tjóni á móti eigin framlagi. Menn fara í verkfall, þeir missa laun, þeir missa yfirvinnu, þeir missa eitthvað, það er þeirra tjón, og þeir valda þriðja aðila miklu tjóni miðað við það tjón sem þeir valda sjálfum sér, fólki sem á enga aðild að þessum kjarasamningi. Ég nefni til dæmis framhaldsskólanemendur, þeir eiga ekki aðild að kjarasamningum. Þeir sitja núna allir heima sem afleiðing af verkfalli. Þeir eru vopn í höndum verkfallsbeiðenda, nákvæmlega eins og núna þegar sex menn sem eru með 400 þús. kr., það er yfir miðtölu Íslendinga, helmingur Íslendinga er með lægri laun, fara fram á 40% launahækkun í umhverfi þar sem menn voru að semja um 2,8%.

Þeir valda gífurlegu tjóni á einhverri eyju, Vestmannaeyjum. Menn eru farnir að flytja fiskinn frá Vestmannaeyjum sem getur valdið miklu tjóni. Það er verið að byggja hótel sem ekkert gengur, það fer væntanlega í vaskinn. Þeir valda þriðja aðila miklu tjóni sem á ekki aðild að kjarasamningum.

Sá sem þeir eru semja við getur heldur ekki samið um 60% launahækkun. Hvað gerist þá? Þá vilja hinir á skipinu líka fá 60% launahækkun, eða hvað? Þá vilja allir aðrir starfsmenn Eimskips líka fá launahækkun, eða hvað?

Þetta er vandinn í hnotskurn.

Ég held að þetta sé vandamál sem við þurfum að fara í gegnum, að greina hvernig við getum komið í veg fyrir þetta. Mér finnst þetta ekki eðlilegt, mér finnst ekki eðlilegt að á þriðjudag ætli Isavia í verkfall. Það eru reyndar 400 starfsmenn. Þeir ætla að mæta ekki í fimm tíma, þeir ætla að stoppa allt flug til Íslands í fimm klukkutíma, valda fólki úti í heimi óhemjutjóni. Ég sé það ekki einu sinni fyrir mér. Það kemur fimm tímum seinna, en það er alls konar tengiflug og annað vesen og tjón sem verður og allt saman í smáa letrinu. Þetta er yfirnáttúrulegt fyrirbæri, verkfall. Það er ekki bætt neins staðar.

Þetta finnst mér að hv. þingmenn þurfi að skoða. Ætla menn að hafa þetta svona, að þeir sem valda mestu tjóni fái hæstu launin? Eða ætlum við að gefa láglaunastéttunum líka séns sem ekki geta valdið þriðja aðila eins miklu tjóni? Ég held nefnilega að þetta sé ástæðan fyrir því hversu illa gengur að hækka lægstu laun í landinu.