143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það mundi ekki breyta miklu þó að hún væri í höndum ríkisins því að opinberir starfsmenn geta líka farið í verkfall. Þeir búa reyndar við þau undarlegu kjör, eins og ég nefndi fyrr í kvöld, að þeim ber að borga í ákveðið stéttarfélag og þeir mega ekki stofna stéttarfélag þegar þeir berjast fyrir kjörum sínum. Það eru lög sem Alþingi setti og ég er búinn að flytja átta sinnum breytingartillögu um að fara þar að stjórnarskránni. Það mundi ekki breyta miklu þó að það væri opinbert fyrirtæki sem stundaði þessar siglingar. Það eru mörg fordæmi fyrir því að opinberir starfsmenn hafi líka valið verkfallstímann rétt þannig að það valdi þriðja aðila miklu tjóni.