143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka umhverfis- og samgöngunefnd, meiri og minni hluta, fyrir vinnu hennar. Það er erfitt að taka ákvörðun í jafn mikilvægu máli og raun ber vitni en ég er þeirrar skoðunar að þau skilyrði sem uppfylla þarf til að ganga gegn verkfallsréttinum séu uppfyllt í þessu máli. Ríkið hefur það lögboðna hlutverk að tryggja samgöngur til Vestmannaeyja, að þjóðvegurinn þangað sé opinn. Hann hefur nú verið lokaður eða takmarkaður með einum eða öðrum hætti í nokkrar vikur og komið hefur fram að það hefur skert lífsgæði, aðgang að heilbrigðisþjónustu og atvinnu.

Það er ekki létt verk að ganga gegn verkfallsréttinum en ég tel að í þessu tilviki neyðumst við til þess.

Þess vegna segi ég já.