143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

viðhorf forsætisráðherra til loftslagsbreytinga.

[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hvað varðar breyttan tón þá er hann bara sá sami og var í gær og hefur verið undanfarin fimm ár eins og ég gat um, en hv. þingmaður gat reyndar um að hún hefði lesið um hvaða tónn hefði verið hjá mér í gær (Gripið fram í.) og það getur verið varasamt að reiða sig á vissar heimildir hvað það varðar.

Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að menn haldi áfram að reyna að draga úr orkunotkun og þá sérstaklega í þeim löndum sem framleiða orku á mengandi hátt. Þar geta Íslendingar líka hjálpað til eins og við erum að gera með því að aðstoða önnur lönd við að nýta sjálfbæra orkugjafa.

Ég fundaði um þessi mál með aðalritara Sameinuðu þjóðanna ekki alls fyrir löngu og hann bauð mér í framhaldinu að mæta á leiðtogafund sem hann stendur fyrir, og Sameinuðu þjóðirnar, í aðdraganda næsta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna til að ræða þessi mál, loftslagsmálin. Þar er sérstakur áhugi á því sem Íslendingar hafa fram að færa og verður ánægjulegt að geta tekið þátt í þeirri vinnu því að auðvitað er þetta gríðarlega stórt og mikið áhyggjuefni (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður rakti.