143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

upplýsingar til almennings um skuldaniðurfærslu.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Svo virðist sem hv. þingmaður hafi það að sérstöku markmiði, og alveg sérstaklega undanfarna daga, að reyna að gera sem flesta óánægða eða að minnsta kosti búa til sem mest óöryggi hjá sem flestum.

Hér er verið að kynna tillögur sem fela í sér gríðarlega stórt úrræði til að koma til móts við heimili landsins. Viðbrögð hv. þingmanns við þessu og undirbúningur hans fyrir umræðuna hefur eingöngu snúist um að reyna að ala sem mest á tortryggni og finna sem flesta hópa sem hann getur mögulega á einhvern hátt gert óörugga eða óánægða. Þetta er ekki gott að hafa að leiðarljósi í pólitísku starfi. Svarið við spurningu hv. þingmanns er einfalt. Þó að rangfærslurnar hafi verið margar snerust þær allar um sama hlutinn.

Svarið er einfaldlega það að það sem var kynnt í Hörpu er það sama og var síðan útfært. Það sem var verið að kynna núna nýverið, frumvörpin, snýst um það hvernig það sem kynnt var í Hörpu yrði framkvæmt, tæknileg útfærsla.

Flóknara er það ekki, virðulegur forseti.