143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

þjóðhagslegur ávinningur af hvalveiðum.

[15:18]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að heimsbyggðin virðist vera á öðru máli um hvalveiðar en við Íslendingar. Hér í þinginu liggur frammi fyrirspurn frá mér um veiðar á langreyði og hrefnu, hvaða fyrirtæki hafa fengið leyfi til þeirra veiða og hver þjóðhagslegur ábati er af þeim.

Mér er efst í huga að fá að meta heildarhagsmuni, hver ábatinn sé af veiðunum miðað við það tjón sem við sjáum skapast af veiðunum.

Í síðustu viku fengum við fregnir af því að norður-ameríska matvælafyrirtækið High Liner Foods hafi hætt að versla við HB Granda vegna tengsla fyrirtækisins við Hval hf. og vinnslustöðvar þess. Fyrirtækið gat ekki boðið neytendum sínum upp á það.

Á mánudag barst sú frétt að alþjóðadómstóll Sameinuðu þjóðanna hefði komist að þeirri niðurstöðu að hvalveiðiáætlun Japans á suðurskautinu þar sem þeir veiða þúsund hvali á ári þjónaði engum vísindalegum tilgangi og hefur dómstóllinn nú úrskurðað að Japanir skuli hætta þeim hvalveiðum.

Í dag sjáum við minnisblað frá forseta Bandaríkjanna þar sem hann gagnrýnir hvalveiðar Íslendinga harðlega, nánar tiltekið veiðar á langreyði. Hann segir að það nái langt yfir öll viðmið Alþjóðahvalveiðiráðsins og beinir þeim tilmælum til bandarísku stjórnsýslunnar að hún beiti Íslendinga þrýstingi vegna hvalveiða okkar.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að við séum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Hefur forsætisráðherra borið saman ferðamennskuna og fiskveiðar við tekjur vegna veiða á langreyðum sem nú eru seldar af einu fyrirtæki til Japans? Hefur forsætisráðherra metið utanríkishagsmuni Íslands þegar Bandaríkin ákveða að setja okkur út í kuldann? Og hvert er vægi þessara hagsmuna?

Er þvermóðska í þessum efnum æskileg að mati hæstv. ráðherra? Þurfum við ekki að fara að horfast í augu við það að ekki er stemning fyrir hvalveiðum í heiminum og að við fórnum þar meiri hagsmunum fyrir minni?